Sjö góð ráð fyrir foreldra með innkaupakerrur, sem eru að missa vonina

Klukkan er rúmlega fimm. Það er stappað á kössunum. Þú gleymdir miðanum heima. Það eru allir svangir, það eru allir þreyttir og pirraðir og alveg að pissa á sig. Og nú er einhver að grenja í grænmetisdeildinni.

Hér eru nokkur ráð til þess að gera búðarferðir með börn ögn bærilegri.

1. Skildu þau eftir heima

Ef þess er einhver kostur, sleppið því þá að taka smábörn með í stórmarkaði og verslunarmiðstöðvar. Í grunninn er þetta megabögg fyrir skynfærin, svæði sem eru svo stútfullt af áreiti að það er nær líffræðilega ómögulegt að suða ekki um eitthvað eða fyllast hungri, þorsta eða annarri ófullnægju. Þið finnið þetta sjálf, maður kaupir yfirleitt alltaf einhvern óþarfa. Takið þá þörf og margfaldið með fjórtán, þá eruð þið kannski komin með kenndina sem krakkarnir eru að díla við.

2. Haltu þeim upplýstum

Væntingastjórnun er lykilatriði fyrir litla krakka. Ef það þarf að skjótast inn og græja tvo hluti þá útskýrið það þá fyrir þeim, eða ef um stórinnkaup er að ræða þá látið þau vita að þetta muni taka tíma. Ef það er nauðsynlegt að fylla á orkuforðann hjá útkeyrðum einstakling undir 10 ára þá ákveðið fyrirfram hvað á að kaupa fyrir þau, finnið það um miðbik ferðarinnar og hlustið ekki suð um neitt annað. (Ein taktík er: resting-bitch-face eða „þú-veist-betur-en-að-reyna-þetta-góða-mín“).

3. Hrósaðu fyrir góða frammistöðu

Hrósið smáfólki fyrir sjálfsstjórn og látið vita að þið kunnið að meta það þegar þau halda kúlinu heila verslunarferð.

4. Haltu út bugunina

Ef þið verðið fyrir bugun/frekjukasti í nágrenni við Nammilandið (það lenda allir í búðar-bugun einhvern tíma á lífsleiðinni) reynið þá að halda herlegheitin út. Leyfið barninu að klára kastið sitt og bíðið róleg í hæfilegri fjarlægð. Það er mjög gott, ef þess er einhver kostur, að taka hreint exit úr úr versluninni að kasti loknu.

5. Sýndu skilning

Ef þið verðið vitni að foreldri sem er að díla við búðarbugun með barninu sínu þá sendið endilega augnaráðið: „Ég þekki þetta og skynja sársauka þinn – þú ert ábyggilega frábært foreldri“ fremur en hið algenga „Aumingja þú sem hefur ekki stjórn á barninu þínu“.

6. Syngdu!

Ef það brestur á með suði er ágætt ráð að syngja sig í gegnum innkaupin. Það er ekki hægt að syngja og suða á sama tíma. Þetta virkar vel á leikskólaaldurinn. Grunnskólabörn er hægt að spyrja út í söguþráð eða minnstu smáatriði uppáhaldsmyndar/bókar/tölvuleiks og fá þau til að mala í korter. Hvað segiru’, hvernig virkar þetta Minecraft eiginlega?

7. Kassafreistingar eru Satan

Kassafreistingar eins og söfnunarspjöld með Disney persónum og annað glingur sem stillt er upp í sjónhæð barna við kassana eru erkióvinir foreldra. Börn eru fyrirsjáanlegir neytendur og gljáandi pappírsmiðar með 1200% álagningu eru ómótstæðilegir í þeirra augum. Svo ekki gefa eftir á kassanum. ALDREI. Þau komast upp á lagið og þú festist í suðlúppu sem verður þér eins og forgarður helvítis um aldur og ævi.

Nútíminn foreldrar er ný og skemmtileg síða helguð þessu risavaxna hlutverki. Lækaðu okkur á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram