Jólin hjá Stefáni Árna og Dagrúnu Ásu: „Einhver stemning í loftinu á þessum árstíma“

Ritstjórn Húsa og hýbíla heimsótti nýverið þau Dagrúnu Ásu Ólafsdóttur og Stéfán Árna Pálsson. Þau búa í hlýlegri íbúð í Hlíðunum en eignin hefur verið innan fjölskyldunnar um árabil. Þau voru búin að skreyta heimilið hátt og lágt fyrir okkur og leggja fallega á borð. Við fengum þau til þess að svara nokkrum spurningum varðandi jólin og hefðirnar í kringum hátíðirnar.

Hvað kemur ykkur í jólaskap? „Myrkrið, jólaljósin, kertin í skammdeginu og snjórinn þegar hann birtist. Síðan er einhver stemning í loftinu á þessum árstíma, þegar allir eru að undirbúa jólin, sem kemur manni líka í jólaskap.“

Uppáhaldsjólalag? „Uppáhaldsjólalagið mitt er nýlegt og heitir Jólin eru okkar með Baggalúti, Valdimar og Bríeti. Ég dásama allt það sem Baggalútur gerir og þetta lag er engin undantekning. Annars er uppáhalds jólaplatan Það eru jól með Sigurði Guðmundssyni og Sigríði Thorlacius. Síðan er Auld Lang Syne með Rod Steward alltaf klassískt. Uppáhaldslagið hans Stefáns er Ó helga nótt með Agli Ólafssyni og Fóstbræðrum, það er svo fallegt og hátíðlegt. Ég á svo mörg uppáhalds jólalög og stelst oft til að hlusta á þau jafnvel um hásumar.“

Hvenær byrjið þið að skreyta fyrir jólin? „Um leið og desember er genginn í garð, ég vil hafa heimilið skreytt fyrir fyrsta í aðventu og að aðventukransinn sé tilbúinn.“

Hvað er ómissandi fyrir ykkur yfir hátíðirnar? „Heimatilbúið rauðkál, sörur og jólabjórinn frá Tuborg.“

Besti jólailmurinn? „Jól frá Edesign og lykt af greni og ristuðum möndlum.“

Ef þú mættir óska þér hvers sem er í jólagjöf hvað myndi það vera? „Ferð til New York með Stefáni, það er okkar uppáhaldsstaður í veröldinni. Síðan er alltaf gott að fá falleg rúmföt og náttföt í jólapakkann.“

Auglýsing

læk

Instagram