Ný íslensk heimildamynd um íslenska matarhefð og sögu verður frumsýnd í Bíó Paradís

Auglýsing

Föstudaginn 18. október verður frumsýnd í Bíó Paradís heimildamyndin Gósenlandið – íslensk matarhefð og matarsaga.

Gósenlandið er þriðja kvikmyndin í röð heimildamynda sem kvikmyndafélagið Gjóla ehf hefur framleitt undir stjórn Ásdísar Thoroddsen, sem beinir augum að sögu og verkmenningu á Íslandi. Sú fyrsta fjallaði um bátasmíðar, önnur fjallaði um búningasaum og nú er það sú þriðja sem fjallar um mataröflun, matseld og matarsögu.

Matargerð á Íslandi einkenndist af skorti; salt vantaði, brenni vantaði, korn vantaði, flest það sem nóg var af hjá nágrannaþjóðum. Engu að síður hefur þjóðin sem byggði landið fundið leiðir til að bæta úr skortinum. Því er nafnið, Gósenlandið, ekki gefið í kaldhæðni. Heldur má segja að mataræði Íslendinga í hinu gamla bændasamfélagi, hvort sem þeir bjuggu inn til dala eða í þurrabúð við sjóinn hafi verið furðu hollt, þótt vitanlega hafi eitthvað verið um hörgulsjúkdóma á útmánuðum. Síðan hófst mikill innflutningur rúgs og annarra korntegunda á fyrri hluta 19. aldar og prótínneysla Íslendinga snarminnkaði. Sú mikla breyting hélt áfram og um miðja tuttugustu öld töldust Íslendingar með helstu sykurætum heims, ásamt þjóðunum við Karíbahafið sem framleiddu sykurinn. Menningaráhrif frá herraþjóðinni í Danmörku mótuðu matarsmekk Íslendinga löngum og síðan áhrif frá Bandaríkjunum eftir stríð. Nú koma til aðrir áhrifavaldar; matarmenning innflytjenda og þjóða sem Íslendingar sækja heim, lífræn ræktun og tískustraumar í matargerð. Andi okkar tíma vísar til endurskilgreiningar á hefð og til mótsvars við fjöldaframleiðslu, þegar hún, ásamt alþjóðavæðingu, hefur endanlega haslað sér völl.

Sem í fyrri myndum er hvort tveggja leitað fróðleiks til fólks sem starfar við það sem fjallað er um sem og til fræðimanna sem kynnt hafa sér söguna. Bakstykkið er aðkoma Elínar Methúsalemsdóttur heitinnar frá Bustarfelli og fjölskyldu hennar. Elín sat sem barn við hlóðirnar í gamla burstabænum og tók þar síðar við búsforráðum og fluttist á sjöunda áratug í nýtískulegt hús við hliðina á hinu gamla. Elín lést í sumar sem leið, 86 ára að aldri. Dóttir hennar Björg hafði lengi rekið búið ásamt eiginmanni sínum, Braga Vagnssyni, en nú gengur það áfram til sonarins, Eyþórs Braga. Þessir þrír ættliðir mynda kjarnann í frásögninni um íslenska matarhefð og frá þeim er síðan farið vítt um landið og fróðleiks aflað. Þátttaka þeirra í kvikmyndagerðinni var fyrir hönd Minjasafnsins að Bustarfelli, sem rekið er undir merki Þjóðminjasafns Íslands.

Auglýsing

Annars var kvikmyndin styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna.

Kvikmyndatakan fór fram frá vori 2018 fram í ágúst 2019. Ásdís Thoroddsen klippti myndina.

Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi tónlist og útsetti þjóðlög fyrir Gósenlandið. Textarnir eru þjóðvísur og þulur. Kammerkórinn Hljómeyki söng undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar og Snæfríður María Björnsdóttir söng einsöng. Tónlistin mun koma út á Spotify í sama dag og frumsýningin verður.

Konráð Gylfason sá um samsetningu og litgreiningu og Hallur Ingólfsson um hljóðvinnslu. Þeir hafa unnið við fyrri myndir Ásdísar.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram