„Vó, þú ert bara 22 ára gömul!“

Texti/ Aðalheiður Ólafsdóttir
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir
Förðun/ Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

 

Brot úr ítarlegra viðtali Vikunnar sem aðgengilegt er á áskriftarvef Birtings.

Guðrún Ásla Atladóttir tók við sem eigandi hins rómaða veitingastaðar Café Riis á Hólmavík fyrir ári síðan. Þetta fyrsta ár hefur verið fjölbreytt og lærdómsríkt fyrir Guðrúnu Áslu, mörg verkefni hafa bæst við og ástin bankaði upp á en að auki lauk árinu með alvarlegum heilsubresti sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Blaðamaður spyr hvers vegna í ósköpunum 22 ára heimsdama, nú 23 ára, með bachelor-próf í arkitektúr, hafi ákveðið að eignast veitingastað á Hólmavík á Ströndum, í tæplega 400 manna samfélagi, reka hann sjálf og að auki mötuneyti fyrir grunnskóla, leikskóla og rækjuvinnslu staðarins ásamt því að sitja í stjórn nýs brugghúss. „Já, þegar stórt er spurt,“ svarar Guðrún Ásla brosandi. „Draumurinn minn var alltaf að setjast að í litlu þorpi, til dæmis á Ítalíu eða Frakklandi, og eiga svona smábæjarlíf, þar sem maður getur átt góðan tíma með sjálfum sér, laus við stress og áreiti, með nóg af verkefnum því að samfélagið styður sig sjálft og allir eiga sinn þátt í að halda samfélaginu gangandi.

Mig hefur alltaf langað til að búa í samfélagi þar sem allir hjálpast að og því lít ég á núverandi líf mitt á Hólmavík sem mjög mikilvægan kafla í lífinu mínu. Ég á eftir að klára masterinn í arkitektúrnum en vil frekar klára masterinn þegar ég er orðin eldri og nota árin núna, þegar ég er full af orku, til að reka Café Riis með tilheyrandi hlaupum við að þjóna og kokka og allt sem tengist því, ásamt uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Hólmavík. Ég er búin að læra svo mikið á þessu fyrsta ári sem eigandi Café Riis og hef heldur betur bætt í reynslubankann. Ég er ekki með þennan rekstur til að halda honum flötum heldur langar mig að hann stækki, dafni og verði enn betri. Það má alltaf gera gott betra.“

Varð ástfangin af Café Riis og Hólmavík

En hvernig skyldi það hafa komið til að Guðrún Ásla tók við rekstrinum á Café Riis? „Þegar ég útskrifaðist með bachelorgráðu í arkitektúr vorið 2020 var allt lokað vegna Covid en planið hafði verið að fara að ferðast og klára svo masterinn. Ég hringdi í Báru frænku sem átti þá Café Riis ásamt Kidda frænda, manninum sínum, og bað um sumarvinnu. Ég hafði góða reynslu því ég hafði unnið lengi fyrir háklassa veisluþjónustu í Skotlandi og svo eru Bára og Kiddi bæði tvö frændfólk mitt hvort úr sinni áttinni, svolítið skondið en svona er nándin í litlu samfélögunum okkar á Íslandi er það ekki? Mjög rómantískt, eins og mig hefur alltaf dreymt um,“ segir Guðrún Ásla kímin.

„Ég fékk vinnuna og það var brjálað að gera þrátt fyrir Covid því Íslendingar voru duglegir að ferðast. Ég sneri aftur sumarið 2021 og ákvað að vera áfram yfir veturinn og fór þá að vinna í mötuneytinu sem fylgir rekstrinum. Fyrirtækið hafði verið á sölu og mig langaði að kaupa það. Ég vildi því vera eins mikið á staðnum og ég gat til að læra inn á allt og finna út hvernig ég vildi gera hlutina. Ég fékk staðinn afhentan 1. janúar 2022 og var einfaldlega orðin svo ástfangin af veitingastaðnum og enn meira ástfangin af Hólmavík að ég fann að þetta var rétt. Mamma og pabbi tóku þessu ótrúlega vel, en settu þann fyrirvara að yngri systkini mín tvö væru líka til í þetta og að ég myndi leiða verkefnið. Ég bjó til viðskiptaáætlun og hér er ég í dag.“

Mikil orka í húsinu

Café Riis er rótgróinn veitingastaður sem var opnaður árið 1996. Frumkvöðlarnir Þorbjörg Magnúsdóttir og Magnús Magnússon heitinn, endurbyggðu Riis húsið með sögulegt gildi hússins að leiðarljósi. „Það eru í raun forréttindi fyrir mig sem arkitekt, þjón og kokk að hafa fengið þetta tækifæri að taka við rekstri veitingastaðar í Riis-húsinu, elsta húsi Hólmavíkur,“ segir Guðrún Ásla, „og þeirri samfélagslegu ábyrgð að reka veitingastað allan ársins hring á Ströndum ásamt því að gera það í vernduðu húsi og þeirri ábyrgð sem því fylgir frá sjónarhorni arkitektsins. Ég er mjög þakklát fyrir tækifærið. Ríkharður Riis einokunarkaupmaður Danakonungs reisti húsið árið 1896 fyrir verslun sína og maður finnur svo sannarlega fyrir þeirri miklu orku sem er í þessu fallega tréhúsi og gefur jákvæðan kraft.

Hún er svo góð eins og allt annað í okkar undurfagra óspillta nærumhverfi á Ströndum. Auk þess fylgdi Bragginn, gamla félagsheimilið á Hólmavík, með en hann er breskur hernámsbraggi úr seinni heimsstyrjöldinni sem var notaður sem félagsheimili fyrir bresku hermennina á Reykjum í Hrútafirði þangað til Strandamenn á Hólmavík fluttu hann til Hólmavíkur til að nýta sem félagsheimili fyrir samfélagið. Í dag er hann nýttur í alls kyns veislur og aðra mannfagnaði, en hugmyndin er að setja líka upp svo kallað „pop-up museum“ eins og ég kalla það, svona hreyfanlegt safn sem mun hýsa sýningu með sögum og almennum upplýsingum af svæðinu. Það finnst mér spennandi og gaman að fá að rækta ferðamennskuna hér með þessu framlagi.“

Áttu bara hvort annað í Skotlandi

Guðrún Ásla er skírð í höfuðið á ömmum sínum tveimur, þeim Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Hólmavík sem lést langt fyrir aldur fram, og Áslu Fossádal sem er hálfur Færeyingur og hálfur Dani. Nafnið Ásla er færeyskt og Guðrún Ásla fyrsta íslenska konan til að bera nafnið. Þegar hún var eins árs gömul settist fjölskyldan að í Skotlandi, nánar tiltekið í úthverfi borgarinnar Aberdeen á norðausturströnd Skotlands, en þar hefur fjölskyldan haft annan fótinn í yfir tvo áratugi.

Faðir hennar fór að vinna í Aberdeen eftir flugnám hans í Prestwick á vesturströnd Skotlands og hafa foreldrar hennar tekið þátt í mörgum skemmtilegum og spennandi verkefnum sem tengjast flugi og ferðamennsku með blandi af Norðursjávarolíu- og gasiðnaðinum. Í borginni sjálfri búa um 230.000 manns og í Aberdeenskíri héraðinu í kring búa um það bil 260.000 manns. Guðrún Ásla segir að fólk þekkist því vel þar, eins og á Íslandi, og algengt að rekast á kunnugleg andlit eins og hér þegar farið sé niður í bæ.

Þegar Guðrún Ásla var fjögurra ára eignaðist hún systurina Maríu Rún og fjórum árum seinna bættist svo litli bróðirinn, Atli Jóhann í systkinahópinn. „Við áttum auðvitað bara hvort annað í Skotlandi, það var ekkert hægt að hlaupa yfir til frænku eða ömmu og afa þannig að við tölum um okkur sem „Við fimm“ en það er einmitt líka nafnið á fyrirtækinu sem ég stofnaði til að reka Café Riis.”

„Vó, þú ert bara 22 ára gömul!“

Skólaganga í Skotlandi er töluvert ólík frá Íslandi og þegar fjölskyldan fluttist til Reykhóla vegna starfa föður Guðrúnar, þar sem hann tók við starfi framkvæmdastjóra Þörungaverksmiðjunnar árið 2008 á vegum alþjóðafyrirtækis, var það töluverð breyting fyrir níu ára stelpu að byrja í skóla á Reykhólum. Hún hafði verið í 80 manna árgangi, sem var þó lítill skóli í Aberdeen að hennar sögn, en á Reykhólum voru nemendur skólans alls um 30 og aðeins þrjú börn jafngömul henni.

„Við vorum fjögur í bekknum, þetta var sjokk en svakalega góð og þroskandi upplifun og frábær lífsreynsla á þessum aldri að fara úr alþjóðaumhverfinu í Aberdeen í hið örsmáa á Reykhólum og sjá hvað menntakerfið getur verið breytilegt.Í Skotlandi er mikill agi, allir í skólabúningi og standa í beinni röð á meðan allt var miklu frjálslegra á Reykhólum.

Það er miklu meiri nánd við kennarana í litlum skólum úti á landi og mikil samskipti við alla í skólanum en ekki bara jafnaldrana. Eftir að hafa haft búsetu á milli landa allt frá því að ég man eftir mér tel ég að þessi þroski komi sem gerir það að verkum að ég fer óhrædd í það stóra verkefni að kaupa og reka Café Riis. Fólk er bara: „Vó, þú ert bara 22 ára gömul!“ en ég held að ég hafi bara alltaf getað tengst bæði eldra og yngra fólki og aldrei dæmt neinn út frá aldri. Ég hef nú aldeilis lent í því sjálf eftir að ég tók við Café Riis, það er mjög algengt að fólk biðji um að fá að tala við eigandann og verði steinhissa þegar ég birtist. Mér finnst það eiga við bæði hvað ég er ung og að ég er kona.”

Auglýsing

læk

Instagram