Ólafur Ragnar býður sig ekki fram á ný

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hyggst ekki bjóða sig fram til forseta á ný. Þetta kom fram í nýársávarpi hans á RÚV rétt í þessu.

Ólafur sagði að sú margþætta óvissa sem fyrir fjórum árum leiddi til áskorana um að hann gegndi áfram embætti forseta sé ekki lengur til staðar. „Ég met mikils traustið sem allt það góða fólk sýnir mér en bið það og landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem ég hef í dag gert að meginboðskap,“ sagði hann.

Í ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs.

Hann sagði að þótt annar haldi um forsetastýrið verði hann áfram reiðubúinn að sinna verkum á þjóðarskútu Íslendinga. „[Ég] er á engan hátt að hverfa frá borði; verð ætíð fús að leggjast með öðrum á árar,“ sagði Ólafur.

Sjá einnig: Er næsti forseti Íslands í þessum hópi? Taktu þátt í könnuninni

„Á komandi árum mun ég með nýjum hætti geta sinnt samvinnu á Norðurslóðum, treyst enn frekar sess Íslands sem miðstöðvar þeirrar umræðu og styrkt Hringborð Norðurslóða sem árlegan vettvang þjóða heims. Kraftar mínir verða líka áfram helgaðir baráttunni gegn loftslagsbreytingum og samstarfi við þjóðir nær og fjær um aukna nýtingu hreinnar orku.“

Þá sagði hann að frelsi frá daglegum önnum gefi sér meiri tíma til að sinna vaxandi ákalli um myndun alþjóðlegrar samstöðu um verndun hafanna og sjálfbæra nýtingu auðlinda sjávar.

„ Verkefni sem öðlast getur aukinn styrk í krafti reynslu og tækni sem við Íslendingar höfum að miðla. Vonandi gefast einnig allmörg ár til að vinna áfram með háskólunum, ungu fólki í vísindum, rannsóknum og fræðastarfi, styrkja þekkingartengslin milli Íslands og annarra landa.“

Auglýsing

læk

Instagram