Ástþór Magnússon býður sig fram til forseta á ný, segir fjölmiðla hafa verið misnotaða

Ástþór Magnússon hefur ákveðið að gefa kost á sér í forsetakosningunum næsta sumar. Þetta er í fjórða sinn sem hann gefur kost á sér til embættisins. Þetta kemur fram á Vísi.

Í bréfi sem Ástþór hefur sent á Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) kemur fram að hann ætli að endurtaka forsetaframboðið „Virkjum Bessastaði.“

Í bréfinu segir hann áhyggjuefni að Íslenskir fjölmiðlar hafi ítrekað verið misnotaðir í aðdraganda kosninga til að draga taum einstakra frambjóðenda um leið og lítið er gert úr öðrum jafnvel með háði og spotti.

„Þannig hafa fjölmiðlarnir mótað skoðanir almennings og í raun ráðið úrslitum kosninga,“ segir hann.

Eftir að hafa spunnið frétt um mína persónu og mitt framboð uppúr gróusögum bað RÚV mig afsökunar en birti það síðan í mýflugumynd eftir að þeim var hótað málssókn og kærum.

Ástþór segir að RÚV hafi í nokkur ár ýjað að því að hann hafi falsað undirskriftir á meðmælendalistum við síðustu forsetakosningar.

„Þá skáldaði RÚV frétt 28 október s.l. undir fyrirsögninni „Ástþór ekki ákærður“ og sagði mig hafa verið sakaðann um slíkar falsanir.  Fréttin var gersamlega upploginn spuni eins og kemur fram í bréfi frá lögreglunni til mín 23 desember s.l.“

Í bréfinu sem Ástþór vísar í kemur fram að hann hafi ekki haft réttarstöðu grunaðs manns í málinu.

„Nú er komið í ljós eftir margra ára rannsókn lögreglu að ekki var grundvöllur fyrir því að ógilda forsetaframboð mitt árið 2012. Skipulögð aðför var gerð að framboðinu og það var ekki í fyrsta sinn,“ segir hann.

„Slík aðför hófst árið 2000 með hræðsluáróðri um stórýktan kostnað við að halda forsetakosningar og frétt RÚV þar sem birt var áskorun á mig að hætta við framboð, annars yrði að hætta við ferðalag grunnskólabarna á Ísafirði, vegna kostnaðar við að láta fólk mæta á kjörstað.  Í kjölfarið var skipulögð aðför með skemmdarverkum gerð að meðmælendalistum framboðsins sem leiddi til þess að framboðið var dæmt ógilt og forsetinn varð sjálfkjörinn.“

Hann segir að slíkur áróður hafi hafist á ný í janúar árið 2008. „Ítrekað var fjallað um kostnað við að halda kosningar og síðan komu bein skot frá fyrrum oddviti yfirkjörstjórnar Reykjavíkur Norður í þeim fjölmiðlum sem voru í eigu stuðningsmanna sitjandi forseta, sem sagðist telja það „misnotkun á lýðræðinu ef Ástþór myndi bjóða sig fram til embættis forseta enn á ný“,“ segir Ástþór.

Ástþór segir að forsetaframboð sitt snúist um að virkja embættið til að boða nýja hugmyndafræði í friðarmálum.

„Það er ábyrgðarhluti ef fjölmiðlar eru látnir komast upp með að útiloka alla opna umræðu um þetta málefni sem er okkur Íslendingum og heimsbyggðinni allri svo mikilvægt,“ segir hann.

„Sérstaklega nú þegar ófriðareldar loga víða um heim og jafnvel Evrópa stendur á barmi styrjaldar.  Þjóðlíf og atvinnuvegir Íslendinga eins og t.d. ferðamannaiðnaður standa berskjaldaðir.  Íslendingar geta ekki snúið bakinu í eldinn. Við þurfum að taka forystu gegn þessu ófriðarástandi.  Að virkja bessastaði með mætti orðsins og nýrri hugmyndafræði er okkar hlutverk.“

Auglýsing

læk

Instagram