Ætlar að gera skemmtilegasta Stúdentablað allra tíma

Grínistinn og rithöfundurinn Daníel Geir Moritz settist í ritstjórastól Stúdentablaðsins í vikunni.

Stúdentablaðið kemur tvisvar út á misseri og er gefið út af Stúdentaráði Háskóla Íslands. Samkvæmt vefsíðu blaðsins gegnir það mikilvægu hlutverki málgagns Stúdentaráðsins og einnig hlutverki upplýsinga- og afþreyingarmiðils nemenda.

Daníel er spenntur fyrir starfinu og játar að nemendur megi búast við breytingum. „Mér hefur oft fundist Stúdentablaðið þyngra og stílhreinna en það á að vera,“ segir hann. „Blað sem á að endurspegla líf og samfélag stúdenta verður að vera líflegt og artí.“

Daníel var kjörinn fyndnasti maður Íslands árið 2011. Hann segir að það hafi vantað afþreyingu í Stúdentablaðið:

Og einhverja vitleysu. Það er aldrei að vita nema að nú muni leynast í því krossgátur, spil og topplistar sem fá háskólasamfélagið til að brosa. Auðvitað mun ég ekki hika við að taka á viðkvæmum málum líka. Ég hlakka einnig til að sjá hverjir sækjast eftir því að starfa í ritstjórn því ég er aðeins með eitt markmið: Að búa til skemmtilegasta Stúdentablað sem gert hefur verið.

Auglýsing

læk

Instagram