Þynnka eftir of mikið samneyti við annað fólk?

Auglýsing

Það er laugardagskvöld og þú situr á bar að spjalla um daginn og veginn við einhvern sem er vinkona vinkonu þinnar. Loksins lagðirðu í að koma þér út úr húsi og hitta vini þína, en hávaðinn er svo mikill, ljósin við barinn fara í augun á þér og þú virðist hafa glatað hæfileikanum að halda þræði í samræðum.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir

Allt í kringum þig virðist fólk skemmta sér vel, þú ert búin/n að fá þér áfengislausan Mojito og reyna að drekka í þig stemninguna en allt kemur fyrir ekki, þér finnst þú örmagna og viðkvæmar tilfinningar eru eitthvað að leika á þig. Þú ákveður að afsaka þig til að fara heim og hendir þér upp í rúm, vitandi það að morgundagurinn muni verða frekar glataður því þú sért svo gjörsamlega búin/n á því. Þér finnst þú kannski hálfgerður félagsskítur, en það ertu svo sannarlega ekki. Þú ert með svokallaðan innhverfan persónuleika og þú fórst ekki yfir mörkin í áfengisneyslu heldur í samneyti við annað fólk.

INNHVERFUR EÐA ÚTHVERFUR PERSÓNULEIKI?
Carl Jung, sem var svissneskur geðlæknir og faðir svokallaðrar greiningarsálfræði, kom fyrstur með kenninguna um innhverfan persónuleika (e. introvert) og úthverfan persónuleika (e. extrovert) árið 1921. Sagði hann muninn á þessum tveimur persónuleikum liggja í því hvernig fólk svaraði samskiptum við  aðra. Jung sagði úthverfan persónuleika hlaða batteríin í félagslegu samneyti á meðan innhverfur persónuleiki gerði það frekar með því að eiga tíma í einrúmi, ánægður með eigin hugsunum eða við að gera eitthvað skapandi.

Auglýsing

Alicon Rice sérhæfir sig í markþjálfun fyrir innhverfa einstaklinga og hún setur þetta skemmtilega upp: Innhverf manneskjar vaknar með fimm krónupeninga. Við hverja félagslega
athöfn eyðir hún einum krónupeningi og í lok dagsins eru allir krónupeningarnir búnir og orkan líka. Úthverf manneskja vaknar án krónupeninganna en fær einn við hverja félagslega athöfn svo í lok dagsins finnst henni hún orðin rík. Í huga þess sem er með innhverfan persónuleika felst fullkomin hamingja í því að kúra uppi í sófa með bók og símann á hljóðlátri stillingu og Rice segir það mjög mikilvægt fyrir þá sem vilja spara krónupeningana.

Hljómar þetta kunnuglega? Þá hefurðu líklega líka upplifað það hvernig þú lyppast niður eftir að hafa farið út á meðal fólks, eða fengið hina svokölluðu „þynnku hins innhverfa“ (e. introvert´s hangover). Hvort sem það er ráðstefna vegna vinnunnar eða brunch í hádeginu á laugardegi getur orkan þín hrein­­­lega verið komin á svo lágt stig að þér finnst þú gjörsamlega útkeyrð/ur, örmagna og gráti næst á eftir. Þér getur líka liðið þannig á meðan þú ert í þessum félagslegu aðstæðum. Rice segir að þetta byrji með því að maður finni til þreytu, síðan komi heilaþoka, erfiðleikar með endurheimt orða og manni finnist öll lífsorka flogin á brott á meðan maður byrjar að missa tenginguna við það sem er að gerast.

FÉLAGSLEG KULNUN EINS OG FLUGÞREYTA
Sálmeðferðarfræðingurinn Dee Johnson segir að þessu geti líka fylgt líkamleg einkenni. Það að finna fyrir of miklu áreiti í félagslegum aðstæðum geti fengið hinn innhverfa til að finna fyrir kvíða, þar sem streituhormónin kortisól og adrenalín æða um líkamann. Með örari hjartslætti og öllu hormónaflæðinu finni hann fyrir þreytu eftir að hafa yfirgefið aðstæðurnar og geti fundið fyrir máttleysi, höfuðverk og jafnvel óþægindum í maga. Þetta sé félagsleg kulnun. Áhrifin af félagslegri kulnun geta staðið yfir í nokkra klukkutíma eða lengur, jafnvel nokkrar vikur.

Johnson líkir þessu við flugþreytu og segir mann ekki komast yfir hana með því að ná góðum nætursvefni í eina nótt. Það geti tekið manneskju með innhverfan persónuleika einhverjar vikur að ná sér eftir stóran félagslegan viðburð. Ekki bara sé hún að glíma við líkamlega þreytu heldur þurfi hún að takast á við heilmargt þar sem fólk með innhverfan persónuleika þurfi að vinna úr öllu sem það sér og heyrir í umhverfi sínu. Johnson segir að innhverfir persónuleikar gleypi allt í sig í umhverfinu, taki eftir hverju smáatriði, hlusti með einbeitingu, taki eftir líkamstjáningu og raddblæ og svo endurtaki þeir samræður í huganum eftir á. Það sé því ekkert einkennilegt að það sjúgi úr þeim alla orku að vera á meðal fólks eða eiga í samskiptum. Hvaða samskipti sem um ræðir taki á, jafnvel eitthvað einfalt eins og símtal eða skilaboð á Messenger geti reynst þeim erfitt þegar „þynnka hins innhverfa“ bankar upp á.

Þótt „þynnka hins innhverfa“ geti verið einna verst eftir stórt, hávaðasamt mannamót, getur hún líka komið fram við eitthvað jafneinfalt og það að vera nálægt vinum og vandamönnum. Rice segir að það sé ekki vegna þess að manni finnist ekki gaman að vera með þessu fólki, heldur taki það mikla orku frá þeim sem sé með innhverfan persónuleika, jafnvel þótt það sé einhver mjög nákominn honum. Hún segir að innhverfir persónuleikar vilji hitta fólk og hafa gaman, það séu bara takmörk fyrir því hversu lengi slíkar samverustundir geti varað áður en þeir fari að finna fyrir þreytu.

HEILAR INNHVERFRA OG ÚTHVERFRA ÓLÍKIR
Rannsóknir hafa sýnt að heilar þeirra sem eru með innhverfan persónuleika eru frábrugðnir heilum þeirra sem eru með úthverfan persónuleika. Ein slík rannsókn var framkvæmd við Harvardháskóla og leiddi hún í ljós að innhverfir persónuleikar væru með stærra og þykkara grátt efni í heilanum en úthverfir. Gráa efnið liggur á yfirborði heilans og sér um hugsun og úrvinnslu sem útskýrir samkvæmt rannsóknum hvers vegna innhverfir persónuleikar vilja heldur velta hlutunum fyrir sér og greina þá, á meðan úthverfir persónuleikar eru heldur bráðlátari. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að innhverfir og úthverfir persónuleikar sýni ólíka svörun við dópamíni, taugaboðefni í heilanum; innhverfir sýni mikla svörun á meðan úthverfir geri það síður.

Mikilvægt er að muna að hvorugur persónuleikinn er æðri hinum, þeir eru bara ólíkir enda misjafnt hvað veitir þeim ánægju. Johnson segir að ef maður kunni ekki fyllilega að meta kosti þess að vera innhverfur, til dæmis þeim að búa yfir ró og eiga gott með að hlusta á aðra, geti maður fundið fyrir skömm og sektarkennd sem bætist þá ofan á þreytuna, eftir að hafa skellt sér út meðal fólks kvöldinu áður. Það sé auðvelt að detta í þann pytt að segja við sjálfan sig að maður hafi einu sinni enn verið of þögull eða að maður þurfi alltaf að vera öðruvísi en allir hinir. Hún segir þessar hugsanir geta verið mjög skaðlegar fyrir sjálfstraustið. Hún sjái það hjá mörgum skjólstæðingum sínum að þeim líði illa yfir því að vera feimnir eða haldnir félagskvíða, en hún bendi þeim á að þeir séu frekar með innhverfan persónuleika og það sé svo sannarlega ekki slæmur kostur.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram