Anna Hulda er komin á síðustu viku meðgöngu og er enn að æfa Crossfit: „Geri þetta fyrir mig og barnið mitt“

Anna Hulda Ólafsdóttir, doktor í verkfræði er gengin rúmar 39 vikur á leið með sitt annað barn. Anna hefur stundað Crossfit og lyftingar í mörg ár og er með yfir 60 þúsund fylgjendur á Instagram en þar hefur hún leyft fólki að fylgjast með sér í æfingum og keppni. Í gær birti hún myndband þar sem hún sýndi frá æfingu en eins og sjá má á myndbandinu gefur hún ekkert eftir. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.

Instagram-reikningur heimsleikanna í Crossfit endurbirti snemma í morgun myndband Önnu og á innan við átta tímum hafa yfir 250 þúsund manns horft á Önnu leika listir sínar.

https://www.instagram.com/p/BcbJebNAKpN/?hl=en&taken-by=crossfitgames

Í myndbandinu sýnir Anna brot úr 20 mínútna æfingu sem hún virðist fara nokkuð létt með. „Ég býð síðustu viku óléttunnar velkomna og vona að litli gaurinn láti mig ekki bíða lengur en eina viku áður en ég fæ að hitta hann,“ skrifar Anna.

Anna segist í samtali við Nútímann vera meðvituð um að það sé umdeilt að æfa á meðgöngu. Hún segir að þrátt fyrir það bendi allar rannsóknir til þess að æfingar á þessum tíma geri bæði konum og barni gott. „Það að fara á æfingu gefur mér orku til að takast á við restina af deginum. Ég gæti ekki verið að vinna svona mikið ef ég væri ekki að hreyfa mig,“ segir Anna sem er lektor við Háskóla Íslands.

Anna segir það auðvitað misjafnt hvað hentar hverjum og einum en hún er sannfærð um að þær æfingar sem hún stundi hjálpi sér að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu. „Margir halda að ég sé að gera þetta til að líta betur út en það er alls ekki raunin. Ég er að gera þetta fyrir mig og barnið mitt,“ segir Anna að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram