Ásmundur í Kastljósinu: „Múslimistar“ eru öfgamenn

Ásmundur Friðriksson hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla á Facebook-síðu sinni í kjölfar voðaverkanna í París á dögunum. Bæði samflokksmenn Ásmundar og pólitískir andstæðingar hafa gagnrýnt hann fyrir velta því upp hvort rannsaka ætti bakgrunn múslima sem búa hér á landi.

Ásmundur var í viðtali í Kastljósi Sjónvarpssins í kvöld. Hann sagðist ekki þekkja múslima á Íslandi af öðru en góðu. „En þeir hafa auðvitað varað við því að múslimistar vildu koma hingað og hefðu sjálfir áhyggjur af því.“

Hann sagði að múslimistar væru öfgamenn. „Við eigum að skoða alla öfgamenn,“ sagði hann.

Spurður hvort hann vilji að bakgrunnur hægri sinnaðra kristinna manna séu skoðaðir vegna voðaverka Anders Breivik í Noregi sagði Ásmundur alveg ömurlegt að bera þetta saman.

Þarna er einn einstaklingur sem ekki nokkur maður í veröldinni vill bera ábyrgð á. Það vill ekki nokkur maður afsaka það sem þessi maður gerði.

Þetta er rangt hjá Ásmundi en fjölmörg dæmi eru um að Breivik eigi sér skoðanasystkini. Í þessari frétt frá því í janúar árið 2012 kemur til að mynda fram að honum hafi borist fjölda bréfa frá stuðningsfólki sem vill hitta hann. Þá kemur fram í þessari frétt að Breivik hafi verið mjög upptekinn við að svara stuðningsfólki sínu en hann var sagður hafa fengið 600 bréf.

Athygli vakti að í færslu Ásmundar á Facebook setti hann íslenska múslima í gæsalappir. Spurður út í það í Kastljósinu viðurkenndi hann að það hafi verið óheppilegt.

„Ég get alveg fallist á það. Ég er ekki fullkominn maður og geri fullt af mistökum og segi örugglega ekki alltaf það sem passar hverju sinni.“

Helgi Hrafn Gunnarsson sagði í Kastljósinu að hann skildi hugmynd Ásmundar og bjóst við henni.

„Það var nákvæmlega þessi umræða sem árásarmennirnir í Frakklandi voru að sækjast eftir,“ sagði hann.

„Þeir vilja gera það erfiðara fyrir múslima að búa á vesturlöndum þannig að þeir verði einangraðri og einangraðri og það verði auðveldara að finna í þeim einhvern reiðineista sem þeir síðan misnota. Ég bjóst við þessa umræðu og það syrgir mig að hún sé að eiga sér stað af alþingismönnum.“

Auglýsing

læk

Instagram