Biggi í Maus í rótaramafíunni í Köben

Birgir Örn Steinarsson, Biggi í Maus, flutti til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni fyrir skömmu. Hann og Baldvin Z, leikstjóri Vonarstrætis, vinna nú að handriti að nýrri kvikmynd en Biggi hefur einnig tekið að sér að starf sem rótari.

„Hér í köben er rík hefð fyrir því að íslenskir nemar séu að róta,“ segir Biggi, spurður hvernig er að vera kominn hinum megin við borðið, þar sem hann fór fyrir hljómsveitinni Maus um árabil.

Rótarabransinn hér er frekar lítið samfélag en það er alveg haugur af íslenskum strákum að vinna við þetta. Ég myndi skjóta á að við værum um 15-20 prósent af bransanum. Hópurinn er í alvöru kallaður Íslenska mafían innan geirans, enda þvílikir víkingar í þessu. Þekktastir fyrir dugnað með slettu af fagmennsku.

En hvernig kom rótið til?

„Ég byrja ekki í sálfræðináminu fyrr en eftir áramót og kvikmyndasjóður er tómur. Ég var því að sækja vinnu í Hamborgarabúllu Tómasar þegar einhver kveikti á því að ég hefði líklegast meiri reynslu í því að róta. Maus rótaði nú sínum græjum að mestu sjálf, þannig að það má segja að ég hafi eytt fleiri klukkustundum í það en upp á sviði. Frekar lítil breyting þannig séð.

Þetta er svo gaman að ég get vel hugsað mér að halda þessu áfram eftir áramót, hvort sem ég muni þurfa þess eður ei. Skemmtilegt lið í þessu og gaman að sjá crewin frá stóru böndunum að verki.“

Hingað til er Biggi búinn að róta fyrir tónleika John Legend, Ed Sheeran, Skid Row og Saxon. Hann fæst þó aðallega við skrif þessa dagana ásamt því að sinna börnunum, koma þeim fyrir í nýju umhverfi og undirbúa meistaranám sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla.

Biggi og Baldvin Z skrifuðu handritið að Vonarstræti og hann segir að handritið að næstu mynd miði vel.

„Fyrsta uppkast að næstu mynd okkar Badda Z er tilbúið og svo erum við Reynir Lyngdal að þróa með okkur hugmynd líka. Er kominn vel af stað með fyrsta uppkast þar,“ segir hann.

„Næsta mynd með Badda er um tvær ungar stúlkur í Reykjavík sem eru sprautufíklar. Jóhannes Kr hjálpaði okkur að komast í samband við krakka í neyslu á þessum aldri. Þetta er búið að vera tveggja ára verkefni. Þetta verður hin íslenska Requiem for a Dream. Byggt á íslenskum raunveruleika sem fæstir vita að.“

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram