Býður ferðamönnum að sofa á sófanum sínum

Sífellt fleiri bjóða ferðamönnum upp á gistingu í gegnum Couchsurfing-samfélagið. Það virkar þannig að maður býður fólki upp á að gista á sófanum heima hjá sér, endurgjaldslaust, en gestgjafinn stýrir algjörlega hverjum hann tekur á móti.

Markaðsstjórinn Pétur Rúnar Guðnason byrjaði að bjóða ókunnugum upp á gistingu í sófanum sínum í sumar.

„Ég er áhugamaður um óvenjulegar aðferðir og couchsurfing er einhver sérstakasta, en um leið áhugaverðasta leið í gistingu fyrir ferðamenn. Það besta er þó að allir geta prófað — og það var það sem ég gerði,“ segir hann.

„Ég hef aldrei sörfað sjálfur en í kjölfarið á hýsingunni fer það að kitla meira. Mér finnst það þó stærra skref að gista heima hjá öðrum en að hýsa einhvern hjá mér. Það er eitt af því forvitnilega í þessu að pæla í dýnamíkinni á milli þess að vera gestur á ókunnugu heimili annarra og hins vegar að fá ókunnugan inn á sitt eigið heimili. Mjög ólík upplifun en samt nákvæmlega það sama!“

Pétur Rúnar tók nýlega á móti fimmta sófasörfaranum en hann stillti sér einmitt upp á mynd með okkar manni.

„Eitt af því sem ég geri líka er að velja annars vegar úr þeim sem senda mér fyrirspurnir eða beiðnir og hins vegar að senda boð um hýsingu til þeirra sem mér finnst áhugaverðir,“ segir hann.

En hefur hann aldrei fengið einhvern furðufugl í heimsókn? Ja, eða axarmorðingja?

Ég bíð enn eftir að lenda á einhverjum furðufugli eða leiðindaskarfi — samt ekki! Það er mjög öflugt samfélag í kringum couchsurfing.org síðuna. Þar er hægt að lesa umsagnir annarra um viðkomandi manneskju og út úr því má lesa hvort viðkomandi er afspyrnuskemmtilegur eða meira í leit að ódýrum gistimöguleika. Ég hef minni áhuga á að vera ódýrt gistiheimili, en meiri áhuga á að kynnast áhugaverðu fólki og fá innsýn í þeirra þankagang.

Pétur segir að það sé mjög erfitt fyrir glæpamenn, drulluhala og þjófa að fóta sig í couchsurfing-samfélaginu, þó það sé að sjálfsögðu ekki ómögulegt.

„Almennt hef ég ekki áhyggjur af því. Það kostar sitt að komast til Íslands og því er nokkuð hæpið að ferðamenn sem hingað koma séu í vafasömum erindagjörðum á sófasörfi en auðvitað er ekki hægt að útiloka það,“ segir hann.

„Ísland er hipp, kúl og trendí —jafnvel þótt ég sé það ekki! og það er því nokkuð auðvelt að velja að hýsa eingöngu þá sem eru í einlægum tilgangi og með virkilegan áhuga á að upplifa Ísland út frá sjónarhorni heimamanns.“

Pétur er oft spurðyr hvort hann fái enga greiðslu fyrir að hýsa ókunnuga manneskju á sófanum.

„Aðrir hafa líka spurt hvort náin kynni séu hluti af pakkanum. Í mínu tilviki er það hvorugt af þessu tvennu! Til að fá sem mest út úr stuttum kynnum sem þessum er best að geta hagað sér eins og góðir vinir frá fyrstu sekúndu. Það þýðir að öllu small talk kjaftæðinu er sleppt — og það virkar! Hins vegar er það ekki fyrir alla að opna heimili sitt á þennan hátt og búa til pláss í sálartetrinu til að ræða norðurljósin í þaula.“

Meira: Fimm spurningar sem Pétur fær sem gestgjafi sófasörfera

Auglýsing

læk

Instagram