Costco-kúnnar ósáttir við verðkönnun RÚV: „Þetta er algjörlega ómarktækt“

Costco-kúnnarnir í Facebook-hópnum Keypt í Costco Ísl.- Myndir og verð, sem telur rúmlega 80 þúsund manns, eru ekki ánægðir með frétt RÚV um að Bónus og Krónan séu ódýrari en Costco hefur vakið mikla athygli. Einhverjar segja að verið sé að bera saman epli og appelsínur og aðrir þakka Costco fyrir að verðið sé nú lægra hjá öðrum.

Í fréttinni kemur fram að einingaverð fjörutíu vörutegunda, sem valdar voru í verðkönnun RÚV, sé samanlagt lægra í Bónus og Krónunni en í Costco. Þá kemur fram að vöruúrvalið í Costco sé jafnframt minna því níu vörutegundir af þeim 49 sem kanna átti voru ekki til þar.

Umræðan í Facebook-hópnum er ansi fjörug. Fæstir virðast taka undir efni fréttarinnar og flestir virðast standa með bandaríska verslunarrisanum. Hjörvar Ingi Haraldsson leggur orð í belg og segist ánægður með að búðirnar hafi loksins lækkað verð sín „Eftir öll þessi ár af okri“. Hann segist ætla að halda áfram að versla í Costco.

Þorsteinn Jónsson segist hafa átt von á þessu og bætir við að samkeppnin sé í fullu fjöri. Þóra Kristín Sveinsdóttir segir að fyrirsögn RÚV sé röng þar sem að það kemur fram í fréttinni að Costco hafi verið ódýrast oftast, eða í 19 tilvikum en að Bónus hafi verið ódýrari í 17 tilvikum og Krónan í fjórum tilvikum.

Steinunn Þorsteinsdóttir talar um misvísandi samanburð þar sem að Bónus og Krónan hafi lækkað verð eftir að Costco opnaði og Jasmina Crnac talar um að samanburður á gæðum varanna í könnunni sé fáránlegur. „Ódýrasta í Costco borið saman við ódýrasta í Bónus og Krónuni. Hvernig er það sanngjarn samanburður? Sem dæmi: WC pappír í Costco og Bónus er ekki hægt að bera saman. Munurinn á gæðum er svart og hvítt.“

Rebekka D. Elisabetar tekur undir þetta og segir að könnunin sé gerð óháð gæðum og stærð pakkninga. „Svo þetta er algjörlega ómarktækt,“ segir hún ómyrk í máli.

Rétt er að taka fram að borið var saman verð á hverja einingu, ýmist í kílóatali, lítratali eða stykkjatali í könnun RÚV. Magnið sem borið var saman var því það sama. Könnunin var unnin í samstarfi við ASÍ.

Auglýsing

læk

Instagram