„Ég ætla ekki að þræta fyrir það að ég stefni á að eiga haug af peningum“

Gunnar Nelson hefur það gott sem bardagamaður í UFC og stefnir á að hafa það töluvert betra. Þetta kemur fram í skemmtilegu viðtali við Gunnar í DV í dag.

Spurður hvort hann sé orðinn ríkur á íþróttinni segir hann einlægur að hann hafi það nokkuð gott og stefni á að hafa það töluvert betra hvað varðar peninga.

Ég ætla ekki að þræta fyrir það að ég stefni á að eiga haug af peningum þótt þeir séu ekki það sem ég brenn fyrir.

Í DV kemur fram að Gunnar hafi fengið innsýn inn í ljúfa lífið síðan hann fór að keppa í Bandaríkjunum.

„Í UFC eru bestu íþróttamenn í heimi og því er eðlilegt að það sé vel hugsað um okkur og að við fáum ágætlega borgað. Það eru allir að leggja hart að sér. Svona var þetta ekki fyrst þegar ég byrjaði. Þá gisti ég í sófum og á dýnum á gólfinu.“

Sjá einnig: Gunnar Nelson fékk átta milljónir frá UFC fyrir bardagann

Gunnar segir í viðtalinu að frægðin hafi sína kosti og galla. „Maður þarf að læra inn á þetta. Íslendingar eru tiltölulega rólegir yfir þessu en lætin eru oft meiri í Dublin,“ segir hann.

„Ef ljósmyndararnir byrja þar geta hlutirnir oft orðið ansi sturlaðir. Hér er fólk ekkert að missa sig þótt margir vilji fá mynd og það er allt í góðu. Það er því ákveðin blessun að búa hér.“

Hann viðurkennir þó að athyglin verði meiri þegar hann kíkir á djammið.

„Þá er þetta bara eins og það er og maður tekur bara á því og gerir gott úr hlutunum. Ég reyni bara að horfa á það góða.“

Gunnar Nelson berst næst Brasilíumanninum Demian Maia á bardagakvöldi UFC í Las Vegas í desember. Sama kvöld berst  Conor McGregor við Jose Aldo.

Auglýsing

læk

Instagram