Embættismenn fá milljónir í vasann eftir að launin þeirra hækkuðu afturvirkt

Ýmsir embættismenn frá milljónir í vasann í eingreiðslu eftir að kjararáð hækkaði launin þeirra afturvirkt. Ríkisendurskoðandi fær til að mynda 4,7 milljóna eingreiðslu samkvæmt útreikningum BSRB sem fjallað er um á vef bandalagsins.

Kjararáð úrskurðaði fyrir helgi að laun nokkurra embættismanna og forstöðumanna ríkisstofnanna yrði hækkuð afturvirkt — allt að nítján mánuði aftur í tímann.

Eftirfarandi kemur fram á vef BSRB um launahækkanir fimm embætti og eingreiðslur sem þeim fylgja:

  • Embætti ríkisendurskoðanda: Fyrir nýjustu ákvörðunina var ríkisendurskoðandi með ríflega 1,3 milljónir króna í laun á mánuði. Samkvæmt nýrri ákvörðun kjararáðs hækka launin í ríflega 1,7 milljónir, sem er 29,5% launahækkun. Hækkunin er afturvirk frá 1. júlí 2016 og fær því ríkisendurskoðandi rúmlega 4,7 milljóna króna eingreiðslu.
  • Embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins: Fyrir voru laun hans tæplega 1,6 milljónir en hækka nú í tæplega 1,8 milljón. Hækkunin er 14,8%. Forstjórinn á von á um 4 milljón króna eingreiðslu enda hækkunin afturvirk frá 1. janúar 2016.
  • Embætti forsetaritara: Fyrir voru laun ritara forseta um 1,1 milljón króna en hækka nú í ríflega 1,3 milljónir. Hækkunin er 19,6%. Hækkunin er afturvirk frá október 2016 og fær ritarinn því tæplega 1,8 milljóna króna eingreiðslu.
  • Embætti hagstofustjóra: Fyrir voru laun hagstofustjóra um 1,3 milljónir en hækka þau nú í tæplega 1,5 milljónir. Hækkunin nemur 11,4%. Hún er afturvirk frá október 2016 sem kallar á um 1,2 milljóna króna eingreiðslu.
  • Embætti forstjóra Fríhafnarinnar: Laun forstjórans voru tæplega 1,1 milljón króna fyrir hækkun kjararáðs en eru nú rúmlega 1,2 milljónir. Hækkunin nemur 12,8%. Þar sem hún er afturvirk frá ársbyrjun 2016 fær forstjórinn um 2,5 milljóna króna eingreiðslu.

Loks kemur fram að BSRB hafi margítrekað mótmælt því að ráðið hækki laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar verulega „og mun líta til þess fordæmis sem ráðið hefur sett þegar kemur að gerð kjarasamninga,“ segir á vef bandalagsins.

Auglýsing

læk

Instagram