Fjallar um mýtur sem tengjast kynferðisofbeldi: „Hún var bara mætt í skólann“

„Dómskerfið virðist vera þannig uppbyggt að það þurfi að sjást verulega líkamlega á þeim sem er nauðgað en það gerir það sjaldnast. Það er eins og gerð sé krafa um að brotaþoli brjótist um af lífs og sálarkröftum með þeim afleiðingum að hann hljóti áverka. Það er alls ekki algengt,“ segir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsfræðingur og ráðgjafi hjá Lausninni.

Hún stendur fyrir námskeiðinu Þegar sagt er frá næstkomandi miðvikudag en þar verður fjallað um afleiðingar nauðgunar og þau viðbrögð sem brotaþolar kynferðisofbeldis mæta gjarnan þegar þeir greina frá ofbeldinu, meðal annars frá fjölskyldu og fagaðilum. Jafnframt verður fjallað um hvaða þættir styðja við bata brotaþola.

Guðrún Katrín ætlar einnig að fjalla um hinar ýmsu mýtur sem eru ríkjandi um brotaþolann og hegðun hans, sem og þann sem brýtur á. Meistararitgerð hennar í félagsfræði bar heitið Að kæra nauðgun í litlu samfélagi.

Ekki algengt að brotaþolar hafi verulega líkamlega áverka

Til eru ýmsar mýtur um geranda í kynferðisbrotamálum. „Við höfum þá hugmynd að það sé ókunnugur maður í dimmu húsasundi sem ræðst á konu, ógnar henni með hníf og nær fram vilja sínum. Það er sjaldnast þannig, það er oftar einhver sem þú þekkir eða kannast við,“ segir Guðrún Karín.

Nauðganir eiga sér oft stað heima hjá manni, hjá vinum manns, kunningjum eða á stöðum sem maður telur sig öruggan á.

Þá mun Guðrún Katrín einnig fjalla um mýtur sem snúa að brotaþolanum.

„Það virðist vera tilhneiging hjá sumu fólki að finna rök til þess að gera brotaþolann ótrúverðugan,“ segir hún. Nefnir hún sem dæmi fatnað hans og fyrri hegðun. Þá virðist sem að sögur fari af stað sem séu ekki á rökum reistar, til dæmis sagt að þessari manneskju gæti ekki hafa verið nauðgað af því að hún hafi hingað til alltaf verið „til í það.“

„Það er ekki algengt að brotaþolar hafi verulega líkamlega áverka eins og beinbrot eftir nauðgun,“ segir Guðrún Katrín.Hún segir að oft sé brotaþolinn marinn en stórir áverkar séu ekki algengir. Oft sé því slegið fram að þar sem ekki sjáist á brotaþola geti ekki verið að nauðgun hafi verið að ræða.

„Það eru taugalíffræðileg viðbrögð sem valda því að við bregðumst við ógn með því að frjósa. Það er vel þekkt. Þá má líka nefna að ef brotaþolar eru áfengisdauðir, berjast þeir ekki á móti,“ bætir Guðrún Katrín við.

Sjáum brotaþolann frekar fyrir okkur í fósturstellingu út í horni

Þá mun hún einnig fara yfir mýtur um það hvernig brotaþolar eru fyrir nauðgun, á meðan á henni stendur og hvernig brotaþolinn á að vera eftir nauðgunina.

„Hún var bara mætt í skólann, hún var hlæjandi,“ nefnir hún sem dæmi um hegðun brotaþola sem sé líkleg til að vera gagnrýnd af sumu fólki.

„Við virðumst hafa tilhneigingu til að sjá frekar fyrir okkur að brotaþolinn sitji í fósturstellingu úti í horni. En það tengist þessum mýtum sem eru ekki endilega í takt við raunveruleikann. Það er misjafnt hvernig við tökumst á við áföll og hvenær og hvernig þau koma fram,“ segir Guðrún Katrín.

Guðrún Katrín segir afar mikilvægt að fólki viti hvernig eigi að bregðast við ef einhver greinir frá kynferðisofbeldi. „Það eru þessi litlu viðbrögð sem geta haft áhrif á þann sem segir frá.

Allt frá viðbrögðum eins og: „Já, en þú varst nú svolítið full“ eða „Þú hefur alveg sagt að þú hafir á honum,“ nefnir hún sem dæmi. „Það er virkilega mikilvægt að sýna nærgætni þegar fólk greinir frá kynferðisofbeldi,“ bætir hún við.

„Þá er kannski móðir sem segir við dóttur sína: „Guð, ég veit ekki hvort það sé sniðugt að segja frá þessu,“ segir Guðrún Katrín einnig og bætir við að það hafi sýnt sig að svona viðbrögð valdi til dæmis þöggun. Viðbrögð móðurinnar í slíku tilfelli séu einungis vel meint en lituð af ótta við viðbrögð annarra.

Námskeiðið verður haldið miðvikudaginn 2. nóvember kl. 18 til 21 í Lausninni, Hlíðarsmára 14 í Kópavogi. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu félagsins, lausnin.is, og kostar 9.000 krónur á námskeiðið.

Auglýsing

læk

Instagram