Flytja inn sænskt Coke í staðinn fyrir að framleiða á Íslandi, sérstaða íslenska vatnsins „tilfinningaleg“

Coca-Cola European Partners á Íslandi hyggst flytja inn Coke frá Svíþjóð á kostnað innlendrar framleiðslu. Stór Coke í gleri snýr aftur en framleiðslu á henni var hætt hér á landi fyrir nokkrum árum. Forstjóri Coca Cola á Íslandi segir að sérstaða íslenska vatnsins sé fyrst og fremst tilfinningaleg.

Morgunblaðið greinir frá þessu en þar kemur fram að hlutfall framleiðslu hér á landi fari úr 94% niður í 85%.

Morgunblaðið greinir frá því að tilkoma Costco á markaðinn hafi áhrif á ákvörðunina en þar er lögð áhersla á vörur í stórum pakkningum. Í staðinn fyrir að kaupa nýja pökkunarvél til að verða við þessum óskum var ákveðið að flytja meira inn.

Carlos Cruz, forstjóri Coca-Cola á Íslandi fullyrðir í Morgunblaðinu að neytendur finni ekki mun á bragði þar sem kolsýrumagn í innflutta gosinu verði lagað að íslenska markaðnum. Meira gos er í íslenskum gosdrykkjum en víða annars staðar og Cruz segir bragðmuninn liggja í því — ekki vatninu eins og margir telja.

Í Morgunblaðinu segir hann sérstöðu íslenska vatnsins vera tilfinningalega. „Auðvitað gætu einhver steinefni í vatninu haft áhrif á bragð, en þú þarft að vera mikill sérfræðingur til að átta þig á því,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram