Fyrrum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi sagður hafa keypt sér embættið: Sakaður um eitraða vinnustaðamenningu í Reykjavík

Fyrrum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem krafðist þess að fá að bera skammbyssu á Íslandi þar sem hann taldi öryggi sínu ógnað, er mikið á milli tannanna á fjölmiðlum vestanhafs en Gunter stendur nú í harðri kosningarbaráttu í Nevada-ríki þar sem hann berst fyrir sæti í öldungardeild bandaríska þingsins. En það eru ekki kosningaloforð hans sem hafa vakið athygli heldur störf hans sem sendiherra á Íslandi en hér starfaði hann frá árinu 2019 til 2021.

Fjölmiðillinn DailyMail greinir frá því að það hafi tekið bandaríska embættismenn á Íslandi langan tíma að jafna sig á stjórnunarháttum Gunters en vitnað er í skýrslu innra eftirlits bandaríska utanríkisráðuneytisins sem kom út árið 2021. Þar kemur meðal annars fram að embættismenn hafi ítrekað tilkynnt Gunter til innra eftirlitsins vegna hótana og þá er hann sagður hafa virt að vettugi diplómatískar siðareglur sem hafi meðal annars orðið til þess að samskipti við íslensk stjórnvöld hafi hlotið skaða af.

Hér er Donald Trump ásamt Gunter.

Hálfur milljarður í auglýsingar

„Hann algjörlega missti stjórn á skapi sínu og hellti sér yfir einn starfsmann sinn sem hafði skilið eftir snjóþakta skó sína undir skrifborði sínu á sama tíma og hann ásakaði aðra starfsmenn að vera hluti af „djúpríkinu“ (e. deep state),“ segir meðal annars í umfjöllun CBS um málið þegar skýrslan kom út.

Gunter er einn af dyggustu stuðningsmönnum Donald Trumps en DailyMail segir að sendiherrann fyrrverandi, sem er menntaður húðlæknir og hefur þénað ansi vel í gegnum árin á hinum ýmsu læknastofum sem hann rekur, hafi keypt sér sendiherraembættið á Íslandi með hundrað þúsund dollara-gjöf í kosningasjóð Trumps á sínum tíma en það jafngildir tæpum fjórtán milljónum króna.

Það virðist ekki vanta dollarana hjá Gunter því nú hefur hann efnt til auglýsingaherferðar í tengslum við framboð sitt en samkvæmt bandarískum miðlum ætlar húðlæknirinn að eyða að minnsta kosti tæpum hálfum milljarði íslenskra króna í að tryggja sér umrætt sæti á öldungardeildarþinginu.

Auglýsing

læk

Instagram