Gaurarnir á bakvið Kim Kardashian-leikinn fjárfesta í Plain Vanilla, geta keypt fyrirtækið

Tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile Inc, sem sérhæfir sig í að framleiða leiki fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, ætlar að fjárfesta í íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Plain Vanilla fyrir allt að 7,5 milljónir bandaríkjadala eða um 970 milljónum króna.

Plain Vanilla framleiðir spurningaleikinn QuizUp en síðan honum var hleypt af stokkunum haustið 2013 hafa um 40 milljónir notenda skráð sig til leiks og eyða notendur í dag að jafnaði um 30 mínútum á dag í leiknum.

Fjallað var um málið í fjölmiðlum í gær en þar kom ekki fram að Glu Mobile er fyrirtækið á bakvið einn alræmdasta símaleik heims: Kim Kardashian: Hollywood. Leikurinn hefur malað gull fyrir fyrirtækið og auðvitað Kim Kardashian og reglulega hafa verið fluttar fréttir af ótrúlegri veltu leiksins.

Í tilkynningu í gær kom fram að Glu og Plain Vanilla ætli að taka höndum saman og einblína m.a. á þróun QuizUp sjónvarpsþáttarins en tilkynnt var um það síðasta haust. Sjónvarpsstöðin NBC hyggst framleiða 10 þátta seríu sem byggir á QuizUp. Í kjölfarið keypti ITV fjölmiðlarisinn, sem rekur hátt í tíu sjónvarpsstöðvar í Bretlandi, réttinn að QuizUp spurningaþættinum þar í landi.

Niccolo de Masi, forstjóri Glu, tekur sæti í stjórn QuizUp en þar að auki öðlast Glu kauprétt á öllu hlutafé Plain Vanilla á fyrirfram umsömdu verði. Kauprétturinn gildir í 15 mánuði frá fjárfestingunni sem nú hefur verið tilkynnt um.

Kaupin hafa vakið mikla athygli og starfsmenn á vefnum Nextweb vonast til þess að enginn þáttur í væntanlegri þáttaröð verði helgaður Kardashian-fjölskyldunni.

Auglýsing

læk

Instagram