Hagsýnt fólk í Dunkin’ Donuts-röðinni: Voru með tíu þúsund kall á tímann í næturvinnu

50 fyrstu sem biðu í röðinni fyrir utan Dunkin’ Donuts í nótt fengu kort sem veitti þeim kassa með sex kleinuhringjum í hverri viku í heilt ár. Staðurinn opnaði klukkan níu í morgun.

Kleinuhringirnir eru ekki ókeypis þannig að þetta fólk var í raun á fínasta tímakaupi.

Sjá einnig: Fremst í Dunkin’ Donuts-röðinni: „Maður er enn þá volgur eftir Eyjar“

Sumir mættu fyrr og aðrir seinna en ef við reiknum dæmið frá tólf á miðnætti þá sátu viðkomandi í röðinni í níu tíma.

Kleinuhringurinn á Dunkin’ Donuts kostar 300 krónur og „launin“ fyrir 50 fyrstu voru sex kleinuhringir í hverri viku í heilt ár. Þau unnu sér því inn kleinuhringi að andvirði 93.600 krónur.

Þau sem sátu í níu tíma voru því með 10.400 krónur á tímann í þessari næturvinnu.

Agatha Rún sat fremst í röðinni og Jón Karl var númer tvö. Nútíminn ræddi við þau í gærkvöldi og þau játuðu að loforð um fría kleinuhringi í heilt ár hafi rekið þau á staðinn ásamt ást á kleinuhringjum. „Og líka það að hafa ekkert að gera,“ sagði Jón Karl.

Maður er enn þá volgur eftir Eyjar. Ég kom heim í gærmorgun, þannig að sólarhringurinn er enn í ruglinu.

Spurð hvort þau séu sérstakir aðdáendur bandaríska kleinuhringjarisans hafa þau sitthvora söguna að segja.

„Ég bjó í Ameríku og lifði á þessu þar,“ segir Agatha og Jón Karl greip orðið:

„Þetta er alls staðar í heiminum og maður hefur farið á þessa staði þar sem maður hefur komið — í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Danmörku og allt það.“

Og er þetta eitthvað sem hefur vantað á Íslandi? Fjölbreytni í kleinuhringjum?

„Já, almennilega kleinuhringi. Ekki bara súkkulaði og karamellu,“ segir Agatha. Jón tók undir það.

Auglýsing

læk

Instagram