Hatari fær stuðning að utan

Lag sveitarinnar Hatara, „Hatrið mun sigra“, nýtur ekki bara vinsælda hérlendis, því það hefur hlotið langflest atkvæðin í yfirstandandi könnun á Eurovision-fréttasíðunni Wiwiblogs. Þar kjósa notendur vefsins uppáhalds flytjanda sinn úr hópi þeirra sem keppa til úrslita í Söngvakeppni Sjónvarpsins næsta laugardag.

Þó lokaniðurstöður könnunarinnar liggi ekki enn fyrir er augljóst að lag Hatara ber höfuð og herðar yfir samkeppnina. Sem stendur hefur Hatari hlotið meira en 60% atkvæða og er því með mikla yfirburði yfir næsta lag þar á eftir, en það er lag Heru Bjarkar, „Moving on“, sem er með tæplega 13 prósent atkvæða þegar þetta er skrifað.

Í þriðja sæti er lag Töru Mobee, „Fighting for love“ með rétt tæplega 12 prósent atkvæða, lag Friðriks Ómars, „Hvað ef ég get ekki elskað?“ vermir fjórða sætið með rúm sjö prósent atkvæða og Kristina Skoubo Bærendsen er í fimmta sæti með lag sitt, „Mama said“, sem hefur hlotið rúm 5 prósent atkvæða.

Um helgina kemur í ljós hvort notendum Wiwiblogs verður að ósk sinni, en á laugardagskvöld fer lokakeppni Söngvakeppni sjónvarpsins fram í Laugardalshöll og þá velja Íslendingar framlag sitt til Eurovision keppninnar í ár, sem fer fram í Tel Aviv 18. maí.

Auglýsing

læk

Instagram