Herferð McDonalds á Instagram klikkar

Instagram opnar á næstunni fyrir möguleika á að kaupa dreifingu á myndum. Hamborgararisinn McDonalds var einn af þeim fyrstu sem fékk að prófa þjónustuna og gerði það á dögunum með því að kynna nýjan beikonborgara fyrir notendum samfélagsmiðilsins vinsæla, eins og fréttasíðan AdWeek greinir frá.

McDonalds dreifði nokkrum kostuðum myndum sem enduðu hjá fólki sem eltir ekki hamborgararisann á Instagram, líkt og keyptar færslur á Facebook. Notendurnir virtust ekkert sérstaklega sáttir við uppátækið og lýstu yfir vanþóknun sinni í athugasemdum við myndirnar. Notendur Twitter voru einnig fljótir að taka við sér og gerðu grín að McDonalds í færslum sínum.

Samkvæmt AdWeek þykja viðbrögðin benda til þess að notendur Instagram séu ekki tilbúnir til að fá auglýsingar frá stórfyrirtækjum á borð við McDonalds. Þrátt fyrir það er búist við að Instagram selji dreifingu á myndum fyrir 100 milljónir dala ársfjórðungslega. Þá þykir líklegt að skyndibiti höfði illa til notenda Instagram, sem láta ekki auglýsingar frá tísku- og íþróttavörufyrirtækjum trufla sig.

Auglýsing

læk

Instagram