Herferðin #ábyrgðin fer af stað á morgun: Deila reynslu sinni af meðgöngu, þungunarrofum og fæðingum

Auglýsing

Á morgun fer af stað samfélagsmiðlaherferð undir myllumerkinu #ábyrgðin. Sólrún Gunnarsdóttir og Sigrún Edda Halldórsdóttir standa fyrir átakinu en með því að deila sögum undir myllumerkinu vilja þær vekja athygli á æxlunarrétti kvenna, meðgöngu, þungunarrofum og öllu því sem getur fylgt foreldrahlutverkinu. Þær hvetja alla til þess að deila reynslusögum sínum á samfélagsmiðlum, en einnig verður hægt að senda inn nafnlausar sögur sem birtar eru á sérstakri Facebook-síðu átaksins. Nú þegar hafa birst tugi frásagna.

Herferðin sprettur upp úr umræðunni undanfarna mánuði en mikið hefur verið rætt um æxlunarrétt kvenna, þungunarrof og meðgöngur, bæði hér heima og erlendis. Alþingi tókst á um þungunarrofsfrumvarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra í síðasta mánuði og færðist vægast sagt hiti í umræðurnar. Frumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta.

Á Facebook-síðu átaksins segir að þó margir telji sig dómbæra á þarfir, aðstæður og líðan kvenna sem ganga fulla meðgöngu eða kjósa að rjúfa hana, litist slíkar skoðanir af fáfræði og fordómum. Ákveðið var að velja orðið „ábyrgð“ sem yfirskrift herferðarinnar því hæstu gagnrýnisraddir þungunarrofa hrópa að konur eigi að „bera meiri ábyrgð“. Sólrún og Sigrún Edda segja lítinn skilning vera fyrir því að oft er ábyrgðin einmitt falin í því að fara í þungunarrof.

„Með myllumerkinu #ábyrgðin ætlum við að segja frá þeim líkamlegu og andlegu afleiðingum sem meðganga og fæðing hefur í för með sér. Markmiðin eru þau að fræða fólk um afleiðingarnar og benda á algengni þeirra. Þau sem vilja taka þátt nafnlaust geta sent einkaskilaboð á umsjónarkonur viðburðarins. Það er nefnilega ekki eins sjálfsagt að fæða barn inn í þennan heim eins og margir vilja vera láta“ segir á Facebook-síðu átaksins.

Auglýsing

„Þessar skoðanir litast af vanvirðingu gagnvart leghöfum og líkömum okkar. Svo ótrúlega margir gera sér enga grein fyrir því hversu algengt það er að fólk upplifi varanlegar líkamlegar eða andlegar afleiðingar eftir meðgöngu og fæðingu“ segir Sólrún.

Sólrún segir enn fremur að fólk sem sé andvígt þungunarrofum sýni því engan skilning hversu strembin meðgangan og fæðingin getur verið. Hún segir marga í kommentakerfunum hafa haft þá skoðun við að ganga ætti með öll börn og ef foreldrar sæu sér ekki fært að ala þau eða vildu börnin ekki, væri hægt að skrá börnin til ættleiðingar. Sólrún segir þetta fáránlegt, enda er það ekki auðvelt að ganga með barn og fæða það inn í þennan heim.

„Sjálf upplifði ég mikið meðgönguþunglyndi. Mér fannst eins og verið væri að nota líkama minn, eins og ég hefði ekki fullt vald yfir honum, og það hjálpaði mér alls ekki þegar fólk kom fram við kúluna framan á mér eins og hún væri almannaeign, eins og ég hefði skyndilega ekkert persónulegt rými, og að hver sem er mætti labba upp að mér og byrja að strjúka mér um magann“ segir Sólrún í aðsendum pistli til Nútímans.

Þungunarrofsfrumpvarp heilbrigðisráðherra, sem samþykkt var á Alþingi með 40 atkvæðum gegn 18 þann 13.maí sl., heimilar þungunarrof fram að 22. viku meðgöngunnar. Þungunarrof eru þó aldrei framkvæmd nema í samráði við lækna og heilbrigðisstarfsfólk og er ómögulegt fyrir barnshafandi einstaklinga að nýta sér breytta löggjöf sem getnaðarvarnir eða „síðbúna neyðarpillu“ eins og kommentakerfin hafa gefið í skyn.

Þær Sólrún og Sigrún telja mikilvægt að raddir þeirra einstaklinga sem hafa upplifað þungunarrof, fósturmissi, meðgöngu og fæðingu komi saman á morgun og deili sögunum sínum, til þess að dýpka skilning samfélagsins á málaflokknum og fá fólk til þess að líta þungunarrofsfrumvarpið nýjum augum.

„Ég valdi ekki að fara í þungunarrof en fyrir mig var ákaflega mikilvægt að vita að ég hefði valið, að þessi ákvörðun væri í mínum höndum. Ég er ánægð með þá ákvörðun sem ég tók og á í dag alveg yndislegt barn. Samt ætla ég aldrei að gera þetta aftur“ segir í pistli Sólrúnar.

Pistil Sólrúnar um átakið má lesa í heild sinni hér.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram