HM Ladan slær í gegn í Rússlandi

Þeir Kristbjörn og Grétar eru mættir á HM Lödunni til Volgograd, þar sem íslenska landsliðið keppir við Nígeríu á morgun. Nútíminn hefur áður fjallað um þá félaga og Löduna en þeir hugðust að keyra frá Íslandi til Rússlands og fylgja íslenska liðinu á HM.

Grétar var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hann talaði um ferðalagi og hvað hefði á daga þeirra drifið.

Ferðalagið hefur gengið mjög vel að sögn Grétar en þeir félagar komu til Volgograd fyrir tveimur dögum. Þeir lentu í smá vandræðum í Moskvu þegar ladan bilaði. „Það var ekkert mál að græja varahluti og kostaði saman og ekki neitt.“

Sjá einnig: Kristbjörn og Grétar ætla að keyra á HM í Rússlandi á Lödu Sport: „Höfum verið varaðir við“

Þeir félagar fá mikla athygli fyrir bílinn sem er Lada Sport í íslensku fánalitunum.

„Fjölmiðlarnir í hér í Rússlandi eru mjög hrifnir af þessu uppátæki hjá okkur og við höfum þurft að efna til blaðamannafundar því við höfum ekki undan að svara öllum fjölmiðlum. Þannig að við fáum þá bara alla á einn stað og svörum öllum spurningum í einu,“ segir Grétar.

Helstu spurningarnar snúast að bílnum sjálfum. „Af hverju Lada?“ er algengasta spurning fjölmiðla að sögn Grétars.

„Þeim finnst þetta alveg stórmerkilegt fyrirbæri að Íslendingar viti hvað Lada er og eru steinhissa á því að við myndum leggja svona langa vegalengd undir okkur í jafn einkennilegum bíl.“

Það er heitt í Volgograd en það háir þeim vinum ekki mikið, þó að loftkæling sé ekki til staðar í Lödunni að sögn Grétars. Þeir skrúi niður gluggana og keyri á 100. „Þá helst hitinn góður.“

Planið er að halda áfram að fylgja landsliðinu en þeir ætla að leggja af stað til Rostov, þar sem síðasti leikur Íslands í riðlinum fer fram, á sunnudag eða mánudag.

Aðspurðir hvað þeir ætli að gera við Löduna þegar Ísland hefur lokið keppni á mótinu segir Grétar þá að ætla að fylgja liðinu í 16 liða úrslit ef af því verður. „Svo ætlum við að koma heim á Lödunni, það er ekki spurning,“ segir Grétar að lokum.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum strákanna og HM Lödunnar á Facebook og Instagram.

Þessir settu útvarp og hátalara í Löduna en það var það eina sem vantaði

Þeir félagar fengu höfðinglegar móttökur í Volgograd. Hægt er að sjá fleiri myndir með því að fletta til hægri

Ladan hefur fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun

 

Auglýsing

læk

Instagram