Karen hlakkar til og kvíðir um leið nýja starfinu hjá United Silicon: „Svo ég sé alveg hreinskilin“

Karen Kjartansdóttir hlakkar til og kvíðir um leið nýja starfinu hjá United Silicon. Karen hefur tekið að sér starf talsmanns fyrirtækisins en í morgun var greint frá því að hún hafi hafnað starfi hjá RÚV.

United Silicon er eflaust umdeildasta fyrirtæki landsins hefur verið í miklum vandræðum undanfarið. Í færslu á Facebook segir Karen að sú reynsla sem verkefni innan United Silicon færi sér séu þess eðlis að hún ákvað að afþakka gott boð frá RÚV. „Ég hlakka svo til áskorana næstu mánaða,“ segir hún.

Og kvíði þeim um leið, svo ég sé alveg hreinskilin, en það eru svo sem mínar kjöraðstæður.

United Silicon var veitt greiðslustöðvun til fjórða desember í vikunni. Verksmiðjan var ræst í nóvember á síðasta ári en íbúar á Suðurnesjum hafa kvartað undan mengun og lykt síðan.

Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemi verksmiðjunnar í annað sinn á föstudagskvöld. Það þýðir að óheimilt verður að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni.

Karen hefur komið víða við í fjölmiðlum og almannatenslum. Hún segist á Facebook afar þakklát RÚV fyrir að hafa viljað fá sig til starfa. „Þar fer fram magnað og mikilvægt starf sem almenningur getur verið stoltur af,“ segir hún.

„Mér þykir einnig afar leitt að hafa þurft að hafna góðu starfstilboði og mun eflaust oft sjá eftir þessari ákvörðun. Hins vegar virðist enginn hörgull á hæfileikafólki þarna upp í Efstaleiti.“

Auglýsing

læk

Instagram