Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fjallaði um endaþarmsmök í fyrsta skipti

Fjallað var sérstaklega um hugtakið endaþarmsmök á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þetta kemur fram í pistli lögmannsins Borgars Þórs Einarssonar á Deiglunni.

Borgar Þór segir í pistlinum að landsfundur Sjálfstæðisflokksins um helgina hafi verið sigur frjálslyndra afla innan flokksins og unga fólksins. Hann tekur dæmi úr starfi velferðarnefndar á landsfundinum um helgina þar sem umræður sköpuðust um blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna.

„Til máls tók ungur maður sem spurði einfaldlega af hverju hann ætti ekki að geta gefið blóð af þeirri ástæðu að hann stundaði endaþarmsmök við karlmenn á meðan gagnkynhneigðir vinir hans, sem jafnframt stunduðu endaþarmsmök, mættu gefa blóð,“ skrifar Borgar.

Gátu hinir eldri ekki annað en samsinnt þessari röksemdarfærslu. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem sérstaklega er fjallað um hugtakið endaþarmsmök í nefndarstarfi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Borgar Þór endar pistilinn á því að segja að sú gjá sem myndast hefur á síðustu árum milli Sjálfstæðisflokkins og hinna yngri kynslóða verði ekki brúuð á einni nóttu. „En einhvers staðar þarf að byrja. Fundurinn um helgina var góð byrjun.“

Auglýsing

læk

Instagram