Lárus lætur langþráðan draum rætast: Opnar vefjuvagn til að fjármagna kokkanám í Frakklandi

Hinn 21 árs gamli Lárus Guðmundsson stefnir á að láta langþráðan draum rætast og fara í nám í hinum virta matreiðsluskóla Institut Paul Bocuse. Til að fjármagna námið hefur Lárus opnað Vefjuvagninn við Geirsgötu og býður þar upp á rétti sem hann hefur lagt hjarta sitt og sál í að þróa síðustu ár.

Lárus býður annars vegar upp á chili og hins vegar upp á karrý í vefjum en hann er búinn að vera að elda frá því að hann var sjö ára gamall.

Ég tók upp á því 14 ára að virkilega skoða þessa ástríðu og eldaði sjö rétta máltíð á afmælinu mínu fyrir 10 manns. Þá var ekki aftur snúið ég varð húkkt.

Það var í raun ótrúleg tilviljun sem kveikti áhuga Lárusar á skólanum í Frakklandi.

„Ég sat á einum af veitingastöðum Paul Bocuse í Lyon. Á borðinu við hliðina á mér sest vingjarnlegur maður, sem var sífellt að svara í símann. Þegar hann var að leggja frá sér tólið í líklegast níunda skipti, ávarpar hann mig og afsakar ónæðið sem hafði hlotist af þessu,“ segir Lárus.

„Út frá því förum við að spjalla saman og þá kom í ljós að hann er gæðastjóri yfir öllum vetingastöðum Paul Bocuse. Eftir stutt samtal við hann fann hann greinilega hversu mikinn áhuga ég hef á matargerð og hvatti mig eindregið til að sækja um skólann.“

Hann pantaði svo fyrir Lárus sérstakan VIP kvöldverð á einum af veitningastöðunum sem hann hafði umsjón með.

„Það var einstök upplifun og mér leið eins og ég hefði verið staddur í einhverju ævintýri því ég fór til Frakklands með hugmyndir um framtíðina en kom til baka með plan: Ég verð að komast í þennan skóla hvað sem það kostar.“

Ásamt því að safna fyrir náminu þarf Lárus að bæta frönskukunnáttu sína til að fá inngöngu í skólann. Hann er með fullkomna leið til þess. „Ég er með franska konu með mér sem er að kenna mér frönsku í frítíma okkar,“ segir hann.

Vefjuvagninn stendur við Geirsgötu og hægt er að fylgjast með honum á Facebook.

Auglýsing

læk

Instagram