Leikskólastjórar grimmastir við Sólmyrkva-Sævar

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, þurfti að þola svívirðingar alla síðustu viku frá fólki sem taldi sig eiga inni hjá honum sólmyrkvagleraugu. Leikskólastjórar voru grimmastir ásamt fólki í ferðaþjónustu.

Sævar Helgi sagði frá þessu í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir neðan. Hann sagði sárast að hafa fengið símtölin frá leikskólastjórum.

„Ég fékk símtöl frá leikskólastjórum sem töluðu bara um bjarnargreiða og sökuðu mig um mannréttindabrot fyrir að geta fært líka öllum leikskólabörnum gleraugu,“ sagði Sævar.

Svo voru ýmis önnur orð notuð líka, sem ég ætla kannski ekkert að fara út í. Enda er það í sjálfu sér óþarfi. Maður var hundskammaður fyrir að geta ekki gefið öllum, sem við hefðum að sjálfsögðu viljað. Það vildi bara enginn styrkja verkefnið.

Öll grunnskólabörn landsins fengu sólmyrkvagleraugu og Sævar segir flesta sammála um að vel hafi tekist til.

„Ég skildi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég fékk alveg fullt af símtölum, bæði frá leikskólakennurum og ferðaþjónustuaðilum sem kenndu okkur um að eyðileggja fyrir þeim ferðir sem búið var að auglýsa og voru ekki búnir að verða sér úti um gleraugu,“ sagði hann.

„Mér fannst skrýtnast að það kom ekki til greina hjá sumum að hreinlega skiptast á. Í hugum sumra var það ómögulegt.“

Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram