Lóa, Sigga Toll og Krummi dæma Söngkeppni Framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin 11. apríl næstkomandi í Studio 176, myndveri Sagafilm. Dómnefndina skipa Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir úr FM Belfast, Sigríður Thorlacius úr Hjaltalín og Krummi Björgvinsson, þekktastur fyrir söng sinn með Mínus. Keppnin er 25 ára í ár.

Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV og kassamerkið verður #songkeppni fyrir umræðuna á Twitter, sem er aldrei líflegri en þegar beinar útsendingar eru í gangi í sjónvarpi.

Flestir framhaldsskólar landsins eiga sinn fulltrúa í keppninni, sem valinn hefur verið í undankeppni innan hvers skóla. Samband íslenskra framhaldsskólanema og Sagafilm standa að Söngkeppni framhaldsskólanna.

Í tilkynningu frá keppninni kemur fram að fyrirkomulagið verði með sama sniði og í fyrra; um miðjan dag á laugardeginum koma allir flytjendur fram og flytja lög sín. Dómnefnd og áhorfendur velja 12 flytjendur úr hópi þátttakenda og munu þeir flytja lög sín aftur um kvöldið í úrslitakepnninni.

Í úrslitakeppninni velur dómnefnd sigurvegarann, 2. og 3. sæti. Auk þeirra verður vinsælasta lagið valið með símakosningu.

Fjöldi landsþekkts tónlistarfólks steig sín fyrstu skref á tónlistarbrautinn í keppninni. Þar má nefna Emilíönu Torrini, Pál Óskar Hjálmtýsson, Heru Björk Þórhallsdóttur, Eyþór Inga Gunnlaugsson, Ágústu Evu Erlendsdóttur, Magna Ásgeirsson, Birgittu Haukdal, Regínu Ósk Óskarsdóttur, Margréti Eiri Hjartardóttur, Móeiði Júníusdóttur, Hreim Örn Heimisson, Jónsa, Svavar Knút Kristinsson, Jóhannes Hauk Jóhannesson og Einar Bárðarson.

Auglýsing

læk

Instagram