Lögbann á störf Loga Bergmann hjá Árvakri og Símanum

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur fallist á kröfu 365 um lögbann á störf Loga Bergmann Eiðssonar hjá Árvakri og Símanum. Þetta kemur fram á Vísi.

Logi sagði skilið við 365 í síðustu viku og hóf störf hjá Árvakri. Til stendur að hann stýri morgunþætti á K100 og skrifi reglulega pistla í Morgunblaðið en miðlarnir eru báðir í eigu Árvakurs. Þá stendur til að hann vinni sjónvarpsefni fyrir Sjónvarp Símans í samstarfi við Árvakur.

Á Vísi kemur fram að 365 hafi gert kröfu um að lögbann yrði sett á vinnu Loga hjá fyrirtækjunum þar sem fyrirtækið telur hann brjóta gegn ráðningarsamningi sínum við fyrirtækið.

Þá kemur fram að 365 telji Loga hafa brotið freklega gegn skyldum sínum á grundvelli ráðningarsamnings við 365, sem kveður á um 12 mánaða uppsagnarfrest og 12 mánaða samkeppnisbann að honum loknum.

„365 var því nauðugur sá kostur að krefjast þess hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að lögbann yrði lagt á störf Loga Bergmanns hjá þessum aðilum. Af tillitsemi við Loga var krafa 365 sú að lögbanninu yrði afmarkaður tími til næstu 12 mánaða í stað 24 mánaða, eins og 365 hefði getað gert kröfu um á grundvelli starfssamnings Loga Bergmanns,“ segir í frétt Vísis.

Auglýsing

læk

Instagram