Logi Geirs aðstoðaði á slysstað og gagnrýnir fólk sem hjálpaði ekki til: „Hvað gengur að ykkur?“

Handboltakappinn Logi Geirsson varð vitni að umferðarslysi í Hafnarfirði í gær. Hann fór á vettvang og hjálpaði til og gagnrýnir í færslu á Facebook fólk sem ók framhjá slysstað án þess að bjóða fram hjálp sína.

Logi segir að ökumaður hafi yfirgefið vettvang eftir að hafa klesst harkalega aftan á bíl sem var kyrrstæður á rauðu ljósi. „Eftir stóð fjölskylda í bílnum sem hafði verið keyrt á, í mikilli geðhræringu með tvö ung börn sem grétu, og konan sem sat við stýrið gat vart talað við lögregluna enda í miklu uppnámi,“ segir Logi.

Ég vatt mér að fjölskyldunni og tók af konunni símann enda gat hún ekki gert grein fyrir því sem gerst hafði og hvar hún væri stödd. Ég útskýrði fyrir lögreglunni hvað hafði gerst og reyndi að hughreysta börnin sem grétu þarna hálf úti á götunni.

Hann segist ekki vera að reyna að fá fólk til að líta sig sem hetju en gagnrýnir fólk sem ók framhjá slysstaðnum. „Þið hin sem keyrið og gangið framhjá og horfið út um gluggann þegar lítil börn standa úti á götu grátandi í rigningu eftir slíka uppákomu, skammist ykkar,“ segir hann ómyrkur í máli.

„Svona hlutir fara ekkert fram hjá manni og augljóst að fólk þarfnast aðstoðar þegar það stendur grátandi út á miðri götu. Hvað gengur að ykkur? Hvernig væri að sýna smá samfélagslega ábyrgð og hjálpa félaganum þegar eitthvað gerist? Kannski eru þetta full harkaleg viðbrögð hjá mér en þetta var það fyrsta sem ég hugsaði á vettvangi.“

Logi segir að það hafi verið margt fólk í kring sem hjálpaði ekki til. „Það var gangandi fólk þarna, fólk í strætóskýli, búðareigandi og fleiri. Engum datt í hug að athuga með náungann og bjóða fram aðstoð sína,“ segir hann og biðlar til lesenda sinna:

„Lausnin við þessu að mínu mati er að þú kæri lesandi segir við þig: „Ef ég sé einhvern í vandræðum þá býð ég fram aðstoð mína, því hún getur skipt máli“ — því þú getur verið næstur í röðinni.“

Auglýsing

læk

Instagram