Lögreglan í Vestmannaeyjum veitir loksins upplýsingar um kynferðisbrot: Rannsakar tvö mál

Lögreglan í Vestmannaeyjum rannsakar tvö kynferðisbrot sem áttu sér stað á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina. Þetta kemur fram í færslu um hátíðina á vef lögreglunnar.

Einn hefur verið handtekinn vegna málanna. Lögreglan í Vestamannaeyjum hefur hingað til ekki viljað tjá sig um kynferðisafbrot á hátíðinni um helgina.

Fyrra málið kom inn á borð lögreglu aðfaranótt sunnudags og átti brotið sér stað í kringum miðnætti kvöldið áður.

Þolandinn, ung stúlka, fékk viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður. Rannsókn er að mestu lokið en óljóst um málsatvik.

Seinna málið var tilkynnt lögreglu að kvöldi sunnudags en það átti sér stað eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags.

„Um tengda aðila er að ræða og fékk konan viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður,“ segir á vef lögreglu.

„Vettvangur var rannsakaður og sakborningur handtekinn af lögreglu skömmu eftir tilkynningu þar sem skipulögð leit fór fram af honum í Herjólfsdal. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin.“

Í færslu lögreglu kemur ennig fram að sex minniháttar líkamsárásir hafi átt sér stað á hátíðinni og að áfallateymi hafi aðstoðað fólk við ýmis mál svo sem sjálfsvígshugsanir, kvíða og fleira.

„Það er miður að upp hafi komið kynferðisbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð við þeim þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang,“ segir í færslu lögreglu.

„Það er mat lögreglu og áfallateymis að vel hafi tekist til með að senda ekki tafarlausar upplýsingar um alvarlegustu brotin til fjölmiðla heldur að veita slíkar upplýsingar á réttum tímapunkti eins og alltaf hafi staðið til.“

Auglýsing

læk

Instagram