Loka slátrað í leiklestri: „Ég setti extra kúk í verkið“

Hugleikur Dagsson lítur svo á að rokksöngleikurinn Loki verði aldrei settur upp — en verðandi Þjóðleikhússtjóri segir að verkinu hafi aðeins verið frestað. „Ég skil ekki af hverju ég var ráðinn ef þetta átti að vera eitthvað annað en *prump – halló – fokkaðu þér!*. Við hverju var fólk að búast?“ sagði Hugleikur í hlaðvarpsþættinum Hefnendurnir á Alvarpinu.

Nútíminn greindi frá því í síðustu viku að Þjóðleikhúsið hafi frestað Loka um óákveðinn tíma. Búið var að raða í hlutverk og Selma Björnsdóttir var sest í leikstjórastólinn.

Í frétt Nútímans kom fram að handrit leikritsins hafi „verið til vandræða“ en Hugleikur Dagsson sagði í kjölfarið á Facebook-síðu sinni að það hafi ekki bara verið til vandræða: „Þetta var versta handrit sem Þjóðleikhúsið hafði lesið,“ skrifaði hann og bætti við að hann myndi tjá sig um málið í næsta þætti af Hefnendunum „og ekki neins staðar annarstaðar.“

Alvarpið hefur birt nýjasta þáttinn af Hefnendunum á vef sínum og þar rekur Hugleikur málið frá a til ö. Hægt er að hlusta á þáttinn neðar í færslunni. Málið er rakið eftir klukkutíma og átta mínútur af þættinum.

Borgarleikhúsið átti upprunalega að setja upp verkið en samstarfið gekk ekki upp. „Borgarleikhúsið dró mig á asnaeyrunum í svona þrjú ár, finnst mér. Mér finnst ein og þetta hafi verið þrjú ár en ég er mjög lélegur með tíma og svoleiðis.“

Hugleikur segir að bölvun hafi hvílt yfir verkinu:

Einn leikstjóri, mjög góður maður ætlaði að leikstýra þessu. En svo hætti hann við. Þetta var stuttu eftir Breivik-morðin og hann tilkynnti mér að hann vildi ekki gera leikrit þar sem fjöldamorðingi væri lofsunginn.

Verkinu var slaufað eftir sérstakan leiklestur í Borgarleikhúsinu en gárungarnir kalla slíkan lestur „líklestur“. Fá verk lifa líklestur af.

Hugleikur bauð því Þjóðleikhúsinu að setja verkið upp og Selma Björns var fljótlega ráðin leikstjóri, Hugleiki til mikillar ánægju.

Hann fékk athugasemdir úr ýmsum áttum um verkið og segir að sín fyrstu mistök hafi verið að hætta að hlusta á sjálfan sig og byrja að þóknast. „Þá held ég að handritið hafi tekið ranga beygju. Það komu bara fleiri og fleiri nótur og ég á að vera sterkari en svo að hlusta á það allt,“ segir Hugleikur.

„Það læddist að mér illur grunur og sá grunur var staðfestur þegar var kallað á samlestur. Það var svo sannarlega líklykt í salnum. Fólk var að fara að jarða þetta verk. Ég fann fyrir því. […] Ef þið viljið lesa handritið þá held ég að það sé verið að nota það á salernum leikhússins sem klósettpappír.“

Hugleikur segist hafa „Hullað“ verkið upp rétt fyrir leiklesturinn og að það hafi ekki hjálpað. „Ég setti extra kúk í verkið.“

Daginn eftir leiklesturinn hringdi Ari Matthíasson, verðandi Þjóðleikhússtjóri í Hugleik og sagði að verkinu yrði frestað. „Sem fyrir mér þýðir að þetta sé búið. Ég tók þessari ákvörðun Ara með jafnaðargeði,“ segir Hugleikur.

Hlustaðu á þáttinn hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram