„Með ólíkindum að fagaðili vogi sér að tala með þessum hætti í fjölmiðlum“

Ummæli Óttars Guðmundssonar geðlæknis í Síðdegisútvarpinu í gær  hafa vakið mikla athygli. Þar sagði hann að trúgirni einkenni konur í samskipti við netið og að konur geti sjálfum sér um kennt ef einhver birtir nektarmyndir af þeim á internetinu, sem voru sendar í trúnaði.

Druslugangan hefur svarað Óttari en í yfirlýsingu á Facebook-síðu göngunnar kemur fram að þegar einstaklingur deilir efni í trúnaði með annarri manneskju í gegnum netið jafngildi það því ekki að deila efninu með öllum sem nota internetið.

Sjá einnig: Óttar segir konur geta sjálfum sér um kennt ef nektarmyndum af þeim er dreift á netinu

„Okkur finnst með ólíkindum að fagaðili vogi sér að tala með þessum hætti í fjölmiðlum. Að dreifa kynferðislegu efni án samþykkis er ofbeldi og það er mikilvægt að talað sé um það sem slíkt,“ segir í yfirlýsingu frá Druslugöngunni.

Þegar einstaklingur deilir efni í trúnaði með annarri manneskju í gegnum netið jafngildir það því ekki að deila efninu með öllum sem nota internetið. Það að samskiptin fari fram á netinu veitir ekki afsökun til að beita ofbeldi.

Í yfirlýsingunni kemur fram að stafrænt kynferðisofbeldi sé alvarlegur glæpur sem hefur sambærilegar afleiðingar fyrir þolendur þess og annað kynferðisofbeldi.

„Rétt eins og í tengslum við annað kynferðisofbeldi er þolendasmánun (e. victim-blaming) mjög algeng í umræðu um þessi brot,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ein birtingarmynd þolendasmánunar er að varpa ábyrgð yfir á þolendur með því að gefa til kynna að þeir hafi á einhvern hátt kallað ofbeldið yfir sig.“

Í yfirlýsingunni segir að orðræða af þessu tagi sé ekki einungis meiðandi í garð þolenda heldur líka til þess fallinn að draga úr alvarleika þess að beita ofbeldi og viðhalda ranghugmyndum gerenda um að hægt sé að réttlæta brotið.

Þá kemur fram að Óttar komi fram sem geðlæknir og fagaðili. Það gæti orðið til þess að fæla þolendur stafræns kynferðisofbeldi frá því að leita til fagaðila og takast á við afleiðingar ofbeldis og jafnvel ýta undir að frekari vanlíðan og fleiri brot.

„Það er grafalvarlegt og tilefni til að fagaðilar í hans stétt bregðist við svo fólk veigri sér ekki við því að leita til þeirra verði það fyrir ofbeldi. Þolendur verða að vita að fagaðilar standa með þeim.“

Lestu yfirlýsinguna í heild hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram