Meira kvika núna undir Svartsengi en nokkru sinni fyrr

Líkanreikningar sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram á sama hraða og áður. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Heildarmagn kviku undir Svartsengi er komið yfir þau mörk. Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Frá því á föstudag hafa um 140 skjálftar mælst nærri Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík. Langflestir skjálftanna eru smáskjálftar undir 1,0 að stærð en stærsti skjálftinn var 2,8 að stærð á föstudagskvöldið á um 5 km dýpi skammt SA við Þorbjörn. Síðustu tvo til þrjá daga hefur verið væg fjölgun í fjölda jarðskjálfta svæðinu m.v. áður, en mögulega hefur þar áhrif að rólegheita veður hefur verið síðustu daga og mælitæki því næmari á smáskjálfta.

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Hættumatið er óbreytt frá síðustu útgáfu. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, þriðjudaginn 12. mars kl. 15 og gildir fram á þriðjudaginn 19. mars, að öllu óbreyttu.

Óvenju takföst röð atburða hingað til

Veðurstofa Íslands sagði frá því í frétt í síðustu viku þegar kvikuhlaupið 2. mars hegðaði sér sumpartinn á annan hátt en fyrri kvikuhlaup. Vísindamenn munu halda áfram að afla frekari gagna til að skoða hvort að atburðarrásin 2. mars séu merki þess að virknin í tengslum við kvikusöfnunina undir Svartsengi og sú óvenju takfasta röð atburða með endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum í kjölfarið sé að breytast.

Áður hefur atburðarrásinni á Sundhnúksgígaröðinni líkt við atburðarrásina sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Eldgosin urðu hins vegar ekki með því reglulega millibilli sem við höfum séð hingað til á Sundhnúksgígaröðinni og í raun er það mjög óvenjulegt hversu takföst virknin hefur verið hingað til.

Auglýsing

læk

Instagram