Mjög mikið álag á bráðamóttökunni um helgina: „Mikil læti þegar verið er að sinna þessu öllu“

„Þegar maður kæmi sem gestur finndist manni þetta líklega líta út sem ringulreið; fólk gengur mjög hratt um gangana, það er mjög mikið um að vera og mikil læti þegar verið er að sinna þessu öllu.“

Svona lýsir Jón Magnús Kristjánsson, settur yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, ástandinu á bráðamóttöku spítalanum um helgina en mikið álag var á kvöldin og á nóttunni alla helgina.

Þegar ástandið er svona eru allar stofur uppteknar af sjúklingum sem eru bráðveikir, það eru sjúklingar á sjúkrabörum sem liggja víðsvegar um gangana og aðstandendur þeirra eru hérna líka. Það er aukinn fjöldi af starfsfólki sem eykur á mannfjöldann.

Mikið var um bráðaveikindi en einnig sáu læknar fyrstu tilvik inflúensunnar sem virðist vera snemma á ferðinni. Hennar verður að jafnaði fyrst vart í janúar eða febrúar.

Í gærkvöldi voru kallaðir út þrír læknar sem áttu ekki að vera á vakt, sjúkraliðar, ritarar og hjúkrunarfræðingar. „Þannig náðum við að sinna því fólki sem kemur hingað,“ bætir Jón Magnús við.

Töluvert var um ölvun og pústra um helgina og leituðu nokkrir á bráðamóttöku eftir að hafa slasast við skemmtun helgarinnar. Jón Magnús segir að bráðveikt fólk megi illa við þeim látum sem fylgi slösuðu ölvuðu fólki í uppnámi.

„Við viljum gjarnan halda þeirri stefnu að fólk eigi að vera óhrætt að koma til okkar. Það fær mat á sínum veikindum en það getur komið til þess að því er vísað í önnur úrræði, á læknavaktina eða á heilsugæslustöðvar,“ segir Jón Magnús.

Auglýsing

læk

Instagram