Móðir stúlkunnar sem kærði hópnauðgun: „Hún hefur ekkert til að skammast sín fyrir“

Fimm menn voru sýknaðir í héraðsdómi í síðustu viku eftir að hafa verið ákærðir fyrir að nauðga 16 ára stúlku. Lilja Guðný Björnsdóttir, móðir stúlkunnar, sagði í viðtali við Snærós Sindradóttur í Íslandi í dag í kvöld að hún hafi verið hrædd og ekki þorað að streitast á móti, þetta umrædda kvöld. Sjáðu viðtalið hér fyrir neðan.

„Þegar hún segir mér þetta segir hún að þetta hafi verið fjórir menn. Hún vissi ekki að þeir væru fimm. Hún verður fyrir það sem kallað er hugrof – hún dettur bara út,“ sagði Lilja Guðný.

Þetta er alveg gríðarlegt áfall og maður eiginlega trúir því ekki að hún sé að segja þetta við mann. En það er staðreynd að þetta var gert.

Hún sagði viðtalinu að myndband sem var tekið upp umrætt kvöld hafi verið mjög niðurlægjandi fyrir hana. Hún segir að dóttir hennar hafi ekki getað verið í Reykjavík eftir skýrslutökurnar hjá lögreglu. „Hún hefur verið hér síðan. Þegar sýknudómurinn lá fyrir brotnaði hún niður og fór að gráta,“ sagði hún.

„Hún hefur ekkert til að skammast sín fyrir. Það er það sem er svo gott við hana. Hún er svo skynsöm og það var ekki inni í myndinni að hún myndi skammast sín. Hún gerði ekki neitt ljótt,“ sagði Lilja.

Hún ráðlagði þeim sem lenda í svona ofbeldi að kæra. „Ekki vera að hlífa mömmu við slæmu fréttunum, við þolum ýmislegt. Ekki vera að hlífa öllum í kringum ykkur. Ef maður hefur orðið fyrir svona ofbeldi og svona broti þá bara kærir maður,“ sagði hún.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi eins mannanna, hefur gefið í skyn að dóttir Lilju yrði kærð fyrir rangar sakargiftir. Lilja sagði ótrúlegt að fólk haldi því fram að brotaþoli sé að ljúga í svona málum. „Það er ömurlegt að fara í gegnum allt sem þarf að fara í gegnum. Það er engin ástæða til að ætla að hún sé að ljúga einu sinni.“

Lilja sagði að mennirnir fimm væru ekki skrímsli. „Þetta eru strákar sem hafa gert ýmislegt annað en svona ljóta hluti. Ég er ekki að segja að það sé gott að þeir séu ekki að fara í langt fangelsi,“ sagði hún og bætti við að það hefði verið best ef þeir hefðu játað og iðrast.

„Ég veit að þeir þrá það örugglega að geta tekið þetta allt til baka. En það er ekki hægt. Ef þeir hefðu játað þetta þá hefði dóttir min líklega dregið þetta til baka. Þá hefði kannski almenningur í landinu hugsað kannski: ókei, þeir játuðu og þeir iðrast. Þá er allt mikið betra. Þá er kannski hægt að fyrirgefa. En það er of seint núna, því miður. Það er búið að dæma þessa drengi og þeir eiga ekki gott líf framundan, því miður.“

Sjáðu viðtalið úr Íslandi í dag hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram