Mótmæla komu Mike Tyson til landsins

Hnefaleikakappinn Mike Tyson er væntanlegur til landsins í haust með sýningu sína: The Undisputed Truth. Hópurinn Aktívismi gegn nauðgunarmenningu hefur hafið undirskriftasöfnun á internetinu þar sem komu Tyson til landsins er mótmælt.

Sjá einnig: Mike Tyson á leiðinni til landsins

Árið 1992 var Tyson dæmdur fyrir að nauðga hinni 18 ára gömlu Desiree Washington. Í textanum sem fylgir söfnuninni kemur fram að í ljósi þess að Mike Tyson hefur ekki bara nauðgunardóm á bakinu, heldur líka ofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustu, þá þyki undarlegt að hann skuli boðinn velkominn til Íslands.

Þegar konur hafa loks rofið þögnina og talað opinskátt um kynbundið ofbeldi af öllum toga er óásættanlegt að dæmdur nauðgari og ofbeldismaður fái slíka heiðursmeðferð.

Þau sem skrifa nafn sitt á listann krefjast þess að Björgvin Rúnarsson, sem stendur fyrir komu Tyson til landsins, endurskoði þessa ákvörðun og að boxarinn „fái ekki frekari drottningarmeðferð“.

Björgvin Rúnarsson sagði í viðtali á Bylgjunni á dögunum að Tyson fari yfir feril sinn í sýningunni og dragi ekkert undan.

„Hann mun standa á sviðinu þar sem sýnd verða brot úr mynd­inni sem hann fram­leiddi ásamt HBO um ævi sína. Hann mun greina frá öll­um viðbjóðnum og öll­um sigr­un­um,“ sagði hann.

Auglýsing

læk

Instagram