Nota WhatsApp til að sýna hörmungarnar í Aleppo: „Eins og maður geti dáið á hverri stundu“

Íbúar sýrlensku borgarinnar Aleppo hafa gripið til þess ráðs að nota samskiptaforritið WhatsApp til að koma upplýsingum um stöðu mála í borginni til umheimsins.

Stríð hefur ríkt í Sýrlandi í fimm ár. Síðustu daga hefur sýrlenski stjórnarherinn látið sprengjum rigna yfir Aleppo. Um helgina voru fleiri en 200 sprengjum varpað yfir borgina og létu fleiri en hundrað almennir borgarar lífið.

„Aðstæður hér í Aleppo eru mjög alvarlegar,“ segir Modar Shekho, 28 ára gamall hjúkrunarfræðingur í borginni, í samtali við blaðamann CNN í gegnum WhatsApp.

Það er eins og maður geti dáið á hverri stundu.

Samskiptaforritið er mjög mikið notað í Sýrlandi en 98% þeirra sem nota samfélagsmiðla þar í landi nota WhatsApp.

Hópur í borginni sem telur 154 meðlimi hefur lagt áherslu á að senda myndir og fleira sem sýnir ástandið í borginni og er Shekho einn af þeim. Þau hafa meðal annars birt mynd af látnum dreng sem náði aðeins að verða nokkurra gamall. Hann lést þegar sprengju var varpað á heimili hans.

Einn úr hópnum, Wissam Zarqa, segist vona að með því að nota WhatsApp muni fólk skilja að verið sé að fremja glæpi í landinu. Hann er ánægður með forritið þar sem notkun þess kostar ekki mikið og hægt er að nota það, jafnvel þó að netsambandið sé slæmt.

Auglýsing

læk

Instagram