Notuðu auðkenni fótboltamanna til að svíkja út fé: „Einhverjir algjörlega teknir í rassgatið“

Átta menn í Svíþjóð hafa verið dæmdir fyrir að svíkja út háar fjárhæðir með því að nota auðkenni íþróttamanna þar í landi. Þrjótarnir rændu auðkennum íþróttamanna og tóku út lán en á meðal þeirra eru Helgi Valur Daníelsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Þetta kemur fram á Fótbolti.net.

Fótbolti.net greinir frá því að lögreglan hafi lagt hald á um 400 bankakort, yfir 100 skjöl með fölsuðum persónupplýsingum, fjölda falsaðra vegabréfa og tugi farsíma á heimilum mannanna, sem hafa nú verið dæmdir.

Þrjótarnir notuðu auðkenni íþróttamanna sem voru að flytja frá Svíþjóð, sérstaklega íshokkímanna og fótboltamanna. Þeir náðu 70 þúsund sænskum, milljón íslenskra króna, á nafn Gunnars.

Gunnar Heiðar flutti til Svíþjóðar á ný árið 2014 og byrjaði að spila með Häcken. Í samtali við Fótbolti.net segist hann hafa fengið símtal þar sem hann var spurður að því hvort hann hafi verið að taka út kredit upp á 100 þúsund sænskar í banka.

Ég kom af fjöllum en svo var dagsetningin nefnd og ég sagði að þarna hefði ég verið að flytja til Tyrklands. […] Það var reynt að fá 1,6 milljónir út úr nafninu mínu.

Um er að ræða vel skipulagðan glæpahring. Mennirnir sem voru dæmdir nýttu tímann sem íþróttamennirnir unnu pappírsvinnu þegar þeir voru að flytja úr landi til þess að taka út lán á þeirra nafni.

„Það voru einhverjir algjörlega teknir í rassgatið af þessum köllum. Ég fór ekkert að borga reikninga eftir þá en þeir náðu út einhverjum 60-70 milljónum íslenskra króna. Þetta er risamál og kom eins og sprengja. Þetta var frekar ógnvekjandi á tímabili að vera tengdur inn í svona stóra glæpastarfssemi,“ segir Gunnar á Fótbolti.net.

Auglýsing

læk

Instagram