Ragnar játar ást sína á Justin Beiber: „Segið litlu systur minni að finna sér aðra fyrirmynd“

Ragnar Tómas Hallgrímsson, blaðamaður á tímaritinu SKE, játar í leiðara blaðsins ást sína á kanadíska hjartaknúsaranum Justin Bieber. Ástin fór að krauma þegar hann heyrði ofursmellinn Sorry og hefur blómstrað síðan.

„Sviptið mig öllu kúli; gleymið því að ég var einu sinni rappari; segið litlu systur minni að finna sér aðra fyrirmynd – því ég er 29 ára gamall og ég er Belieber,“ segir Ragnar í upphafi leiðarans.

Ég er Belieber og ekki einu sinni skápa Belieber. Ég er opinber, stoltur, einlægur; Er nú haldinn djúpstæðri og ævarandi tilhneigingu til þess að kunngera aðdáun mína á hvolpeygða Kanadadrengnum; Er sem ástfangin táningsstelpa sem hvíslar nafni ástarinnar í myrkinu: Bieber … Bieber … Bieber.

Ragnar biðlar til fólks að dæma sig ekki og segist kannski geta útskýrt þessa forboðnu ást.

„Þessi þrískipti surrealismi byrjaði með Sorry. Það fór einhver jötunefldur fiðringur um fæturna og ég hreyfði mig. Ég hreyfði mig meir og meir. Svo sturlaðist ég einn í stofunni og sparkaði óvart í Billy hilluna – og verkurinn í hælnum á mér var verkur skammarinnar,“ segir hann.

Hann lýsir afneituninni og hvernig hann taldi að upptökustjórninn og takturinn ættu meiri þátt í ást hans á laginu.

„Stalín hefði geta sungið þetta lag og samt hefði ég dansað. Ég hefði gleymt gúlaginu og áróðursstarfseminni og fjöldamorðunum og ég hefði dansað, já, herra minn – ég hefði dansað.“

Ragnar endar leiðarann á því að segja frá takinu sem Justin Bieber hefur á honum. „Justin Drew Bieber greip mig um aftanverðan hálsinn og þvingaði kinn mína að gróðurlausum brjóstkassanum: „Elskaðu mig.“ Ég gerði það.“

Auglýsing

læk

Instagram