Ragnheiður Sara fékk átta milljónir fyrir frammistöðuna á Dubai Fitness Championship

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fékk að minnsta kosti 70 þúsund dali fyrir sigurinn í kvennaflokki á Crossfit-leikunum Dubai Fitness Championship í síðustu viku. Hún nældi því í tæpar átta milljónir íslenskra króna.

Sjá einnig: Ragnheiður Sara hannaði eigið tattú út frá föðurnafni sínu: „Afsakaðu tárin“

Peningaverðlaun voru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í hverri þraut fyrir sig, 3.000 dalir fyrir fyrsta sæti, 2.000 fyrir annað sæti og 1.000 dalir fyrir þriðja sæti. Ragnheiður Sara vann þrjár þrautir, lenti í öðru sæti í fimm þrautum og í þriðja sæti í einni. Þá fékk hún 50.000 dali fyrir að sigurinn í mótinu.

Í viðtali við mbl.is segir Ragnheiður Sara að hún hafi ekki búist við að fara með sigur af hólmi. Hún varð mjög veik vegna matareitrunar og ældi alla nóttina næstsíðasta keppnisdaginn. Hið sama gilti um þrjár aðrar stelpur á mótinu.

„Við vorum ælandi alla nóttina og mættum svo algjörlega orkulausar til keppni í gær. Við náðum svo að ýta hver annarri áfram í dag,“ sagði Ragnheiður Sara í samtali við mbl.is.

Keppendurnir tókust á við ýmsar áskoranir á mótinu og þurfi Ragnheiður Sara meðal annars að hjóla 38 kílómetra. Hafði hún aldrei hjólað svo langt áður.

Auglýsing

læk

Instagram