Ragnheiður Sara lagði allt undir til að verða eins góður íþróttamaður og hún mögulega getur

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir tryggði sér sæti á heimsleikunum í Crossfit um helgina þegar hún vann Central Regional-undankeppnina í Bandaríkjunum. Heimsleikarnir í Crossfit fara fram 3. til 6. ágúst í sumar en ríkjandi heimsmeistari, Katrín Tanja Davíðsdóttir, hefur einnig tryggt sér þátttökurétt.

Í skilaboðum til aðdáenda sinna á Instagram segist Sara hafa ákveðið í byrjun árs að leggja allt annað til hliðar og einbeita sér eingöngu að því að verða besti íþróttamaðurinn sem hún getur mögulega orðið. „Þetta þýddi að ég þurfti að færa fórnir, stíga út fyrir þægindarammann og gera stóra breytingar á lífi mínu,“ segir hún í skilaboðunum.

Ég flutti frá Njarðvík til Cookeville í Tennesse og byrjaði að æfa í Crossfit Mayhem með Rich Froning og frábæra liðinu hans.

Rich Froning er einn fremsti Crossfit-íþróttamaðurinn heims en hann hefur unnið einstaklingskeppnina á heimsleikunum fjórum sinnum ásamt því að hafa unnið liðakeppnina tvisvar.

„Allt sem ég geri, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar snýst um að bæta mig sem íþróttamaður — verða betri, hraðari og sterkari,“ segir Sara. „Hvernig ég æfi, hvað ég borða og hvernig ég sef er hluti af áætlun sem ég fylgi 100 prósent. Hún virkar og ég elska það!“

Sara segir að með keppninni um helgina hafi hún tekið stórt skref fram á við og að sigurinn þýði í raun að öll vinnan sé að skila árangri. „Mér leið mjög vel í keppninni og náði markmiðum mínum. Tilfinningin þegar sjöttu þrautinni var lokið og ég áttaði mig á að ég hafði sigrað var ólýsanleg. Ég er ótrúlega þakklát og vil þakka öllum sem hafa staðið við bakið á mér, þjálfað mig, þjálfað með mér, stutt mig, styrkt mig og hvatt mig áfram.“

Sara þakkaði einnig aðdáendum sínum fyrir stuðninginn, skilaboðin og kommentin sem hafa borist síðustu daga. „Það er ekki séns að ég nái að svara öllum en haldið endilega áfram að senda mér skilaboð. Ég met þau mikils og les þau öll. Framundan eru svo heimsleikarnir og ég vona að þið séuð tilbúin því ég er það!“

Auglýsing

læk

Instagram