Segir ótrúlegt að KSÍ hafi hafnað FIFA17: „Hefði gert hvað sem er til að vera með“

„Það er ótrúlegt að heyra að þeir hafi hafnað þessu en þeir hljóta að hafa sínar ástæður,“ segir Ólafur Þór Jóelsson, tölvuleikjasérfræðingur, um ákvörðun KSÍ að hafna boði tölvuleikjaframleiðandans EA Sports um að hafa Ísland í FIFA17.

Sjá einnig: EA Sports vildi hafa Ísland í FIFA17, bauð of lága upphæð að mati KSÍ

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Nútímann að EA Sports hefði boðið of lága fjárhæð og því hefðu samningar ekki náðst. Þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem Íslandi er boðið að vera með í leiknum.

Ólafur Þór segir að líklega hafi KSÍ ekki áttað sig á kynningunni sem íslensku landsliðin hefðu fengið með því að vera í leiknum. „Tölvuleikir er orðin einhver vinsælasta afþreying í heiminum og því finnst manni þetta dálítið skrýtið,“ segir hann.

Hann bendir á að leikurinn seljist í fleiri þúsundum eintaka á Íslandi og í tugum milljónum eintaka um allan heim. „Ég er viss um að þetta hefði verið gríðarlega góð auglýsing,“ segir Ólafur Þór.

Sérstaklega af því að þetta var liðið sem fólki þótti vænst um.

Sjálfur hefði hann gert hvað sem er til að fá að vera með í leiknum, hefði hann setið við samningaborðið fyrir Íslands hönd. „Ég hef fylgst með þróuninni í gegnum árin, hversu margir í heiminum spila tölvuleiki,“ segir Ólafur Þór og bætir við að peningarnir hafi mögulega vegið þyngra hjá KSÍ en kynningin og uppbygging ímyndar .

Auglýsing

læk

Instagram