Sigga Dögg gagnrýnir klámrannsókn: Skoðanir lita niðurstöður og einblínt á það neikvæða

Kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir, eða Sigga Dögg, telur nýja rannsókn um klámnotkun framhaldsskólanema vera gildishlaðna og draga upp einhliða mynd af klámi. Hún bendir á að í stað þess að minnast á jákvæðar niðurstöður rannsóknarinnar sé einblínt á það neikvæða og að skoðanir rannsakenda liti niðurstöðurnar.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, doktor í fjölmiðlafræði, kannaði klámnotkun íslenskra framhaldsskólanema en Fréttablaðið fjallaði um niðurstöðurnar í dag. Að baki niðurstöðunum liggja 1.867 svör íslenskra framhaldsskólanema á aldrinum 18-30 ára.

Í samtali við Nútímann segist Sigga Dögg ekki vita fyrir hvern rannsóknin sé gerð eða hverjum hún eigi að gagnast. „Hún er allavegana ekki gerð til þess að taka á þeim vandamálum sem rannsóknin bendir á að felist í klámi. Rannsakandi er að fara yfirborðskennt yfir málefni sem þarf að kafa mikið dýpra ofan í,“ segir hún.

Samkvæmt minni reynslu áttar meirihluti ungs fólks sig á því að klám gefur oft ranga mynd af kynlífi. Það er í algjöru samræmi við niðurstöðurnar rannsóknarinnar en ekki er lögð áhersla á það í niðurstöðunum. Það er jákvæð þróun sem vert er að benda á.

Sigga Dögg telur vanta upp á skilgreiningar á hugtökum á borð við „heilbrigt kynlíf“ og „klám“ í rannsókninni. Hún bendir einnig á að í rannsókninni sé til dæmis endarþarmsmökum stillt upp á neikvæðan hátt og að slíkt kynlíf sé afleiðing kláms þrátt fyrir að manneskjan hafi stundað endaþarmsmök alla tíð.

Þá bendir Sigga á að í rannsókninni megi finna áfellisdóm rannsakenda um kynhegðun, þar sem bent er á að klámnotkun kvenna geti haft þau áhrif að konur hafi aukinn áhuga á að prófa sunda kynlíf með öðrum konum. „Og er það slæmt að sá áhugi vakni? Hljómar eins og dómur um kynhegðun en ekki umfjöllun um samþykki,“ segir Sigga Dögg.

Sigga Dögg segir að í rannsókninni sé ofuráhersla lögð á að klám sé hræðilegt og bara slæmir hluti geti fylgt klámi. Þá sé einblínt á að gera rannsóknina dramatíska.

„Af prófessor að vera finnst mér hún ekki setja rannsóknina faglega fram,“ segir Sigga. „Hún litast af einhliða túlkun rannsakenda, að klám hafi grundvallaráhrif á hegðun ungs fólks í kynlífi.“

Auglýsing

læk

Instagram