Sigur Íslands á Englendingum á EM í sumar olli ekki óvenju mörgum fæðingum um helgina

Leikur Íslands gegn Englendingum í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi í sumar virðist ekki hafa haft áhrif á ástarlíf Íslendinga þegar kemur að fjölda fæðinga níu mánuðum eftir leikinn ótrúlega. Fjöldi fæðinga var í meðaltali á Landsspítalnum og í lægri kanntinum á Sjúkrahúsi Akureyrar um helgina.

Vísir greindi frá því í gær að met hafi verið slegið í mænudeyfingum á Landspítalanum um helgina. Ásgeir Pétur, læknir á Landsspítalanum, birti færslu á Twitter þar sem hann greindi frá metinu og að það hefði verið slegið akkúrat níu mánuðum eftir leikinn.

Í samtali Nútímans við Önnu Sigríði Vernharðsdóttur, yfirljósmóður fæðingarvakt á Landspítala, segir hún að að meðaltali fæðist átta til níu börn á dag.

„Í gær, mánudegi, voru átta fæðingar, á sunnudaginn voru þær þrettán, laugardaginn fjórar og á föstudaginn voru þær tíu. Miðað við síðustu fjóra daga er þetta því bara eins er venjulega hjá okkur, þó svo að á föstudag og sunnudag hafi auðvitað verið fleiri fæðingar en venjulega,“ segir Anna Sigríður.

Anna Sigríður segir ástæðuna fyrir þessum metfjölda í mænurótardeyfingum líklega koma til vegna fjölda þeirra sem fæddust á sunnudeginum og jafnvel tilviljana.

Ingibjörg Hanna Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir á Sjúkrahúsi Akureyrar, segir í samtali við Nútímann að óvenju lítið hafi verið að gera á fæðingardeildinni um helgina og því ekki hægt að sjá tengingu við landsleikinn. „Það er samt alltaf gaman að skoða þetta og leita að einhverjum tengingum,“ segir hún hress.

Auglýsing

læk

Instagram