Stærsta Pokémon-veiði í sögu Íslands, spilari segir að gamall draumur sé að rætast

Pokémon GO er nýr leikur sem notið hefur gríðarlegra vinsælda á stuttum tíma. Í leiknum leitar spilarinn að Pokémonum úti um allan bæ með hjálp Google Earth. Óskiljanlegt? lestu örskýringu Nútímans um málið og haltu svo áfram.

Örskýring: Hvað í andskotanum er þetta Pokémon og hvernig get ég tekið þátt?

Á laugardaginn verður haldin stærsta Pokémon-veiði í sögu Íslands sem Pokémon-spilarararnir Sturla Freyr Magnússon og Magnús Valur Hermannsson skipuleggja.

Strákarnir ætla að setja niður beitur fyrir Pokémona til þess að lokka þá að spilendum. Venjulega þarf maður að leita að Pokémonunum sjálfur en með hjálp beitunnar koma þeir til spilenda.

„Við erum búnir að finna ákveðna staði til að staðsetja nokkrar beitur í einu,“ segir Sturla í samtali við Nútímann.

Það verður til þess að við fáum gríðarlegt magn af Pokémonum á lítið svæði. Þetta er mjög góð leið til að spara tíma og vinnu spilenda.

Sturla segir að beiturnar verði settar á staði sem kallast poke stops en þeir eru yfirleitt menningartengdir; frægar byggingar eða styttur. Beiturnar eru mjög sjaldgæfar og verðmætar úti í heimi og því erfitt að nálgast þær. Strákarnir ætla að kaupa nóg af beitum svo skemmtunin verði sem best á laugardaginn.

Sturla finnur fyrir miklum áhuga fólks enda er samfélagið að missa sig yfir leiknum. Þegar eru komin tæplega 2.400 manns í Facebook-hóp Pokémon-þjálfara og hátt í 200 hafa staðfest komu sína á laugardaginn.

Aðspurður hvers vegna fólk spili leikin segir hann ástæðuna vera nostalgíu. Fólk tengir þetta við æsku þar sem flestir spiluðu gömlu spilin sem börn. 
„Fyrir mig er þetta gamall draumur að rætast,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram