Stelpurnar okkar slá áhorfendametið á laugardag

Ekkert virðist ætla að koma í veg fyrir að nýtt áhorfendamet verði slegið á kvennalandsleik þegar kvennalandsliðið í fótbolta mætir Þýskalandi í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli næstkomandi laugardag, 1. september. Þetta kemur fram í frétt á Vísi.

Íslenska liðið tryggir sér farseðil á HM í Frakklandi á næsta ári í fyrsta skipti í sögunni með sigri á tvöföldum heimsmeisturum og áttföldum Evrópumeisturum Þýskalands en með jafntefli á liðið samt möguleika á að komast á HM þar sem þær eiga eftir að spila á móti Tékklandi.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi að búið væri að selja 7.500 miða í morgun. Tæplega 2.500 miðar eru eftir en áhorfendametið stendur í 7.521 og var sett þegar stórlið Brasilíu spilaði vináttuleik á Laugardalsvelli í fyrra.

Sjá einnig: Stelpurnar okkar hvetja Íslendinga til þess að fylla Laugardalsvöll: „Þegar kemur að svona stórum leikjum er sjálfkrafa partí”

Sex dagar eru í leik og því má fastlega reikna með því að fleiri miðar verði seldir í aðdraganda hans en markmiðið er að fylla völlinn sem tekur tæplega 10 þúsund manns í sæti. Nú er einnig selt í númerið sæti í fyrsta sinn á kvennalandsleik og eru flestir miðar lausir í endahólfunum.

Þjóðverjar hafa beðið um 100 miða fyrir sína stuðningsmenn og þá er von á 70 þýskum sjónvarpsmönnum sem gera leiknum skil.

Hægt er að nálgast miða á leikinn hér.

Auglýsing

læk

Instagram