Stúlknasveitin The Charlies hætt

Stúlknasveitin The Charlies hefur sungið sitt síðasta. Þetta kemur fram í sunnudagsblaðið Morgunblaðsins. Þar kemur einnig fram að frá árinu 2013 hafi stefnt í endalok hljómsveitarinnar, þó að það sé ekki fyrr en nú fyrst sem ákvörðunin liggur endanlega fyrir.

Þær Steinunn, Alma og Klara, sem mynduðu áður stúlknasveitina Nylon, fluttu til Los Angeles árið 2010 eftir að hafa samið við útgáfufyrirtækið Hollywood Records. Því samstarfi lauk nokkru síðar en þær héldu áfram að gefa út tónlist á eigin vegum.

Þó að The Charlies sé hætt þá ætla þær að halda áfram að búa saman í stjörnuborginni.

„Við erum búnar að halda okkur á floti í tæp fimm ár í borg sem er sennilega sú erfiðasta í heimi fyrir listamenn og við missum aldrei sjónar á því að það er stórsigur í sjálfu sér. Við höfum búið þrjár saman í pínulítilli íbúð allan þennan tíma og vinskapurinn hefur styrkst gríðarlega á þessum árum,“ segir Steinunn í Morgunblaðinu og Alma tekur undir:

„Við erum alls ekki búnar að fá nóg eða orðnar saddar. Okkur langar að halda þessu ævintýri áfram, þó að þessum hluta af því sé lokið. Þetta er lífið sem við viljum og við ætlum að halda því áfram á meðan það er það sem við viljum.“

Steinunn segir í viðtalinu í Morgunblaðinu að það sé töluvert síðan þær áttuðu sig á því að hæfileikar þeirra liggja á ólíkum sviðum, þó að þeir skarist líka.

„Allt þetta margra ára ferli hefur skerpt á því. Ég hef lengi fundið að mig langar mest að vinna að því að koma tónlist á framfæri og er að fara að stofna fyrirtæki með Soffíu Kristínu Jónsdóttur. Fyrirtækið mun heita Iceland Sync og mun meðal annars sérhæfa sig í að koma íslensku efni til Bandaríkjanna. Við erum þegar byrjaðar að vinna með nokkrum listamönnum, en það þarf varla að taka það fram að ég mun að sjálfsögðu vilja vinna með Ölmu og Klöru í að koma þeirra efni á framfæri,“ segir hún.

Alma ætlar að einbeita sér að því að semja tónlist fyrir aðra. „[Ég] mun líka syngja eitthvað sjálf. Hluti af því verður tónlist sem verður væntanlega ólík því sem við höfum gert saman, en það verður að fá að koma dálítið í ljós með tímanum.“

Og Klara vinnur að plötu. „Ég mun fyrst og fremst halda áfram að syngja og er komin með drög að plötu, sem ég vona að Íslendingar fái að heyra fyrstir von bráðar,“ segir hún í Morgunblaðinu.

Auglýsing

læk

Instagram