Subway á Ísafirði lokar eftir þriggja ára starfsemi: Bæjarbúar skiluðu sér ekki inn á staðinn

Subway lokar veitingastað sínum á Ísafirði þann 1. september næstkomandi. Ingibjörg Eðvaldsdóttir, mannauðsstjóri Stjörnunnar ehf., rekstraraðila Subway á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að staðnum á Ísafirði verði lokað vegna lélegrar aðsóknar.

Þeir skila sér ekki, bæjarbúarnir, inn á staðinn þrátt fyrir að þetta sé ódýr, hollur og góður skyndibiti.

Ingibjörg viðurkennir í Viðskiptablaðinu að Subway hafi búist við því að aðsókn á staðinn yrði betri. „Við áttum von á því þar sem þau sóttu hart að okkur að opna staðinn,“ segir hún.

Fjölmargir mættu þegar Subway opnaði á Ísafirði í maí árið 2012. Ingibjörg er ekki að ýkja þegar hún segir bæjarbúa hafa sótt hart að því að fá Subway vestur.

Bæjarins besta greindi frá því í janúar árið 2010 að 45% Ísfirðinga höfðu skráð sig í hóp á Facebook sem barðist fyrir því að fá Subway til Ísafjarðar. Alls voru rúmlega 1.800 manns í hópnum.

Í frétt Bæjarins besta kemur einnig fram að aðdragandinn að opnun Subway á Ísafirði hafi verið ansi langur. Árið 2008 var fyrst lýst yfir að veitingarisinn hefði áhuga á að opna á Ísafirði.

Auglýsing

læk

Instagram